Evrópa vakni og verji sig

Ráðherrar Evrópusambandsins munu ræða hert landamæraeftirlit á neyðarfundi sem boðaður hefur verið í dag í kjölfar þess að í ljós hefur komið að höfuðpaurinn í árásinni á París komst inn á Schengen svæðið án vandkvæða.

Abdelhamid Abaaoud, Belgi af markóskum uppruna, lést í áhlaupi lögreglu á íbúð í úthverfi Parísar sem hann hélt til í á miðvikudag. Áður hafði verið talið að hann væri í Sýrlandi og hefði stýrt hryðjuverkunum, sem kostuðu 129 lífið þaðan.

Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, segir að yfirvöld í París hafi ekki fengið neina viðvörun frá öðrum ríkjum ESB um að Abaaoud væri innan Schengen-svæðisins. Hann segir mikilvægt að Evrópa vakni, skipuleggi sig og verji gegn hryðjuverkaógninni.

Innan- og dómsmálaráðherrar Evrópusambandsríkjanna munu hittast á fundi í Brussel í dag þar sem þeir ræða um hert eftirlit með öllum þeim sem ferðast um ytri landamæri 26 ríkja Schengen-samstarfsins. Ísland er þar á meðal.

Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, segir að einhverjir árásarmannanna í París hafi nýtt sér flóttamannastrauminn til þess að laumast inn án þess að tekið væri eftir því og varaði við því að Schengen-svæðið væri í hættu ef ekki yrði bætt úr eftirliti á landamærum þess.

Tengsl Abaaouds við Sýrland og að það fannst sýrlenskt vegabréf skammt frá líki eins árásarmannsins hefur vakið spurningar víða um heim hvort hryðjuverkamenn geti dulist sem flóttamenn frá stríðshrjáðu landinu og undirbúið þannig hryðjuverk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert