Frakkar ætla að halda uppi virku landamæraeftirliti gagnvart öðrum ríkjum Evrópusambandsins eins lengi og hætta verður talin á hryðjuverkaárásum. Þetta sagði Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, í dag en Frakkar eru aðili að Schengen-samstarfinu sem snýst einkum um að fella niður slíkt landamæraeftirlit.
„Frakkland mun viðhalda landamæraeftirlitinu sem komið var á síðasta föstudag eins lengi sem hryðjuverkaógnin gerir það nauðsynlegt,“ sagði ráðherrann á blaðamannafundi eftir neyðarfund innanríkisráðherra ríkja Evrópusambandsins. Mikil hætta væri á hryðjuverkum og það væri skylda franskra stjórnvalda að vernda borgara sína.
Heimilt er samkvæmt reglum Schengen-samstarfsins að taka upp virkt landamæraeftirlit gagnvart öðrum Schengen-ríkjum þegar þörf er talin á auknu öryggi en aðeins í tíu daga. Mögulegt er að framlengja þann tíma um 20 daga ef þörf krefur. Áform franskra stjórnvalda ganga því gegn þeim reglum Schengen-samstarfsins.
Innanríkisráðherrar Evrópusambandsins samþykktu á neyðarfundinum í dag að herða reglur Schengen-samstarfsins þegar kemur að öryggisgæslu á ytri landamærum svæðisins. Þannig verði allir sem um þau fara að framvísa vegabréfum auk þess sem persónuupplýsingar þeirra verða bornar saman við gagnagrunna.