Vilja lýsa Wallenberg látinn

Raoul Wallenberg.
Raoul Wallenberg.

Fjölskylda sænska diplómatans Rouls Wallenberg, sem bjargaði tugum þúsunda gyðinga frá helförinni á árum síðari heimsstyrjaldarinnar en hvarf síðan eftir að hafa verið handtekinn af Rússum, óskaði eftir því í dag við sænsk yfirvöld að hann yrði lýstur látinn.

Fram kemur í yfirlýsingu sem fjölskyldan sendi AFP fréttaveitunni að það væri liður í því að gera upp við málið að fá Wallenberg lýstan látinn. Markmiðið væri að ljúka því og horfa fram á veginn. Það breytti hins vegar engu um afstöðu fjölskyldunnar til Wallenbergs.

Wallenberg var sendur af sænsku utanríkisþjónustunni til Budapest í Ungverjalandi í júlí 1944 þegar landið var hernumið af Þjóðverjum. Hann var þá 31 árs gamall. Hann hvarf hins vegar með dularfullum hætti í byrjun árs 1945 en síðast sást hann 17. janúar það ár umkringdur rússneskum hermönnum.

Fjölskylda Wallenbergs hefur aldrei fengið skýringar á því hvers vegna hann hafi verið handtekinn af Sovétríkjunum skömmu eftir að Ungverjaland var freslað undan hernámi Þjóðverja. Engar upplýsingar hafa heldur fengist um það hvað hafi orðið um hann.

Sovétríkin greindu frá því árið 1957 að Wallenberg hefði verið fangelsaður í Lubyanka-fangelsinu, í sama húsi og rússneska leyniþjónustan KGB var með höfuðstöðvar sínar, og að hann hafi látist þar vegna hjartabilunar 17. júlí 1947. Margir hafa efast um þetta.

Rannsóknarnefnd á vegum rússneskra yfirvalda upplýsti síðan árið 2000 að leyniþjónustumenn KGB hafi skotið Wallenberg til bana árið 1947 í Lubyanka-fangelsinu af pólitískum ástæðum en frekari upplýsingar fengust hins vegar ekki og engar sannanir lagðar fram fyrir því.

Wallenberg fæddist 4. ágúst árið 1912 og væri hann enn á lífi væri hann því 103 ára gamall í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert