Engar lestir ganga í Brussel

Herinn á vakt í Brussel. Viðbúnarðstig í borginni hefur verið …
Herinn á vakt í Brussel. Viðbúnarðstig í borginni hefur verið hækkað. AFP

Ferðum neðanjarðarlesta í Brussel í Belgíu hefur verið aflýst í allan dag vegna yfirvofandi hryðjuverkaógnar. Borgarbúum hefur verið ráðlagt að forðast fjölmenna staði, s.s. verslunarmiðstöðvar og tónleikahús.

Viðbúnaðarstig í borginni og reyndar landinu öllu var hækkað í kjölfar hryðjuverkanna í París fyrir rúmri viku. Margir árásarmannanna voru uppaldir í Belgíu. Einn þeirra er enn á flótta, Salah Abdeslam. Hann er talinn hafa snúið aftur til Belgíu í kjölfar árásarinnar sem hann tók beinan þátt í, mögulega með því að búa til sprengjurnar sem voru notaðar.

Í frétt Sky um málið er haft eftir talsmanni ríkisstjórnarinnar að samkvæmt nýjasta hættumati hafi viðbúnaðarstig nú verið hækkað á fjórða stig, það efsta, vegna „yfirvofandi“ og „mikillar“ ógnar í Brussel.

Í frétt AFP fréttaveitunnar kemur fram að í ljósi þessa hafi verið ákveðið að aflýsa öllum ferðum neðanjarðarlestarkerfisins í borginni í dag, laugardag. Strætisvagnar munu ganga en einnig verður truflun á öðrum samgöngum, s.s. sporvögnum.

Í Brussel eru m.a. höfuðstöðvar NATO og Evrópusambandsins. 

Líklegt er talið að öllum stórviðburðum sem áttu að fara fram í borginni um helgina verði frestað s.s. stórum íþróttaleikjum. 

Í gær var einn maður, sem var í haldi lögreglunnar í Belgíu, ákærður fyrir brot á hryðjuverkalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert