Merkja sprengjurnar „Fyrir París“

Rússar láta nú höggin dynja á vígamönnum Ríkis íslams í Sýrlandi og hafa liðsmenn flughersins merkt sprengjur sínar meðal annars með orðunum „Fyrir okkar fólk“ og „Fyrir París“, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði.

Ríkissjónvarp Rússlands birti myndskeiðið þar sem hermaður sést skrifa orðin með svörtum penna á sprengjur flugvélar, aðeins mínútum áður en hún hefur sig til lofts frá flugstöð hersins í Sýrlandi.

Fyrr í vikunni hét Vladimír Pútín Rússlandsforseti að yfirvöld myndu „elta uppi og refsa“ þeim sem voru á bak við sprengjuárásina í Egyptalandi, sem olli því að farþegaþota fór í sundur og allir um borð, 224 manns, létu lífið.

Þá hafa Pútín og Francois Hollande Frakklandsforseti sameinast um að „tryggja nánari samskipti og samhæfingu“ í aðgerðum ríkjanna í Sýrlandi. Mun Hollande sækja Pútín heim í Kreml í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert