Uggandi vegna hugmynda um skrásetningu

Trump hefur varpað fram þeirri hugmynd að skrá alla bandaríska …
Trump hefur varpað fram þeirri hugmynd að skrá alla bandaríska múslima í gagnagrunn. AFP

Leiðtogar bandarískra múslima hafa brugðist ókvæða við hugmyndum viðskiptajöfursins og forsetaframbjóðandans Donald Trump um stofnun gagnabanka yfir alla múslima í landinu. Hafa ummæli Trump verið lögð að jöfnu við skrásetningu gyðinga í aðdraganda helfararinnar.

„Þetta er meira en skelfilegt, allir sagnfræðinemar vita hvað sérstök skilríki höfðu í för með sér í Evrópu,“ sagði Nihad Awad, framkvæmdastjóri stærstu hagsmunasamtaka múslima í Bandaríkjunum (Cair), í samtali við Guardian.

Awad sagðist ekki hafa heyrt pólitíska leiðtoga hafa í frammi fordóma og hatur af þessu tagi í 20 ár. Hann sagði hugmyndir Trump, og ummæli Ben Carson þar sem hann líkti sýrlenskum flóttamönnum við óða hunda, gefa til kynna að fordómar gegn íslam væru nú hluti af hefðbundinni pólitískri umræðu. Carson er eitt forsetaefna repúblikana, líkt og Trump.

„Við erum að tala um að það kann að vera að hættulegir einstaklingar muni leiða Bandaríkin á 21. öldinni,“ sagði Awad.

Saif Inam hjá Muslim Public Affairs Council í Washington, fann einnig samhljóm milli hugmynda Trump og því þegar J var stimplað í vegabréf evrópskra gyðinga af nasistum.

„Sú staðreynd að hann skuli búi yfir þeirri ósvífni að segja þetta og að hann njóti engu að síður svo mikils fylgis í skoðanakönnunum er áhyggjuefni, svo ekki sé meira sagt,“ sagði Inam. Þá sagði hann truflandi að margir íhaldsmenn væru fylgjandi stefnu Trump og Carson.

Það sem veldur múslimum í Bandaríkjunum ekki síður áhyggjum en ummæli forsetaefnanna er að það virðast vera almenn viðbrögð meðal repúblikana að bregðast við árásunum í París með því að gera alla múslima tortryggilega.

Meira að segja Jeb Bush, sem þykir hófsamur miðað við keppinauta sína í forsetakapphlaupinu, sagði á dögunum að í ljósi árásanna í Frakklandi myndi hann aðeins samþykkja að taka á móti sýrlenskum flóttamönnum sem gætu sannað að þeir væru kristnir.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

Ben Carson líkti sýrlenskum flóttamönnum við óða hunda.
Ben Carson líkti sýrlenskum flóttamönnum við óða hunda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert