„Ég heyrði gelt. Ég gekk að glugganum og spurði háum rómi hvað væri í gangi. Þegar ég leit gegnum gluggatjöldin sá ég byssu.“ Þannig lýsir Fay Wells, framkvæmdastjóri fyrirtækis í Kaliforníu, því þegar nítján lögreglumenn birtust við heimili hennar eftir að nágranni tilkynnti um innbrot.
Wells er svört og hefur skrifað um reynslu sína í Washington Post.
Hún hafði læst sig úti en komist inn með aðstoð lásasmiðs. Örstuttu seinna varð hún vör við umgang og allt í einu blasti við henni byssa.
„Ég hafði aldrei litið byssuhlaup eða andlit manns sem beindi að mér hlöðnu vopni. Í augum hans sá ég ótta og reiði. Ég hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast, en ég sá fyrir mér hvernig þetta myndi enda: ég dáin í stigaganginum fyrir utan íbúðina mína, af því að eitthvað við mig - 170 sm, 57 kg svarta konu - hræddi þennan mann með byssuna. Ég settist niður, reyndi að líta minna ógnandi út, reyndi að róa ástandið. Ég spurði aftur hvað væri í gangi. Ég staðfesti að það væru engin gæludýr né fólk inni.“
Wells var handtekin. Lögregla hlustaði ekki á útskýringar hennar; að hún hefði búið þarna í sjö mánuði, að hún gæti sýnt þeim kvittun frá lásasmiðnum, að hún hefði numið við Duke og hefði MBA-gráðu frá Dartmouth.
„Það sem skipti máli var að ég var svört kona að reyna að komast inn í íbúðina sína - í næstum al-hvítri byggingu í mestanpartinn hvítri borg - og að hvítur maður sem bjó í annarri byggingu hringdi á lögregluna af því að hann hafði aldrei áður séð mig.“
Grein Wells má lesa á vefsvæði Washington Post.