Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, hélt í fyrstu að sprengingarnar við þjóðarleikvang Frakka væru flugeldar. Hann áttaði sig þó fljótlega á því að um hryðjuverkaárás var að ræða. Steinmeier sat við hlið Francois Hollande, forseta Frakklands, og fylgdist með leik Frakklands og Þýskalands.
„Við sáum vissulega engan reyk en ég hélt í fyrstu að um væri að ræða púðurkerlingar frá óábyrgum aðdáendum,“ sagði Steinmeier í samtali við þýska blaðið Bild. Hann segir að Hollande hafi greinilega verið brugðið en á sama tíma hafi hann verið mjög einbeittur og ákveðinn.
Á sama tíma var verið að gera árásir í Bataclan höllinni sem og á ölstofum og veitingastöðum í París. Í heildina létu 130 manns lífið og mörg hundruð manns slösuðust.
Þegar Hollande og Steinmeier fengu frengir af því að þrír menn hefðu sprengt sig upp í nágrenni við leikvanginn veltu þeir fyrir sér hvort hægt væri að halda leiknum áfram og hvort möguleiki væri á því að áhorfendur gætu fylgst áfram án þess að fá upplýsingar um árásirnar.
Yfirgáfu þeir fljótlega sæti sín til að ræða saman en var þeim ráðlagt að halda aftur til sæta sinna til að vekja ekki ugg meðal áhorfenda. „Þegar við heyrðum um árásirnar í París vissi enginn hvernig kvöldið myndi enda. Ég var mjög áhyggjufullur,“ sagði Steinmeier.
Holland yfirgaf leikvanginn en Steinmeier og fylgdarlið hans var beðið um að sitja áfram . „Við fórum aftur til sæta okkar og létum í 45 mínútur eins og við hefðum áhuga á leiknum,“ sagði hann.