„Rýtingur í bakið“

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segir árás Tyrkja á rússneska herþotu jafngilda rýtingsstungu í bakið af hálfu samverkamanna hryðjuverkamanna. „Ég get ekki lýst þessu á annan hátt,“ sagði forsetinn; vélinni hefði verið grandað af tyrneskri herþotu yfir sýrlenskri landhelgi.

Pútín sagði augljóst að hvorki flugmennirnir né herþotan hefðu ógnað tyrkneskri landhelgi, erindi þeirra hefði verið að berjast gegn hryðjuverkamönnum umhverfis Latakia og koma í veg fyrr að þeir kæmust inn í Rússland. Hann sagði að atburðir dagsins myndu hafa umtalsverðar afleiðingar, m.a. á samskipti Rússa og Tyrkja.

„Við höfum alltaf komið fram við Tyrkland eins og vinveitt ríki. Ég veit ekki hver hafði hagsmuni af því sem gerðist í dag, sannarlega ekki við. Og í stað þess að setja sig umsvifalaust í samband við okkur, að því við vitum, snéru Tyrkir sér til bandamanna sinna í NATO til að ræða þetta mál, líkt og við hefðum skotið niður þeirra vél en þeir ekki okkar.“

Pútín sagðist vonast til að alþjóðasamfélagið hefði styrk til að sameinast í baráttunni gegn sameiginlegum óvin.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa kallað sendiherra Rússa á teppið og sagt að um hafi verið að ræða aðgerðir til að vernda tyrkneskt landsvæði. Samkvæmt tyrkneska hernum var rússneska herþotan skotin niður eftir að hún flaug inn í tyrkneska lofthelgi yfir héraðinu Hatay.

Herinn segir að á fimm mínútum áður en vélinni var grandað hefðu flugmenn hennar verið varaðir við tíu sinnum. Yfirvöld í Rússlandi segja hins vegar að vélin hafi aldrei yfirgefið lofthelgi Sýrlands.

Sýrlenskir uppreisnarmenn segja að báðir flugmenn vélarinnar hafi skotið sér úr henni áður en hún brotlenti en þeir séu báðir látnir. Þetta hefur ekki verið staðfest.

Pútin segir árásina á vélina rýting í bakið af hálfu …
Pútin segir árásina á vélina rýting í bakið af hálfu samverkamanna hryðjuverkamanna. AFP
Rússnesk Sukhoi Su-24 sprengjuþota.
Rússnesk Sukhoi Su-24 sprengjuþota. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert