Rússneskar herflugvélar gerðu í dag miklar loftárásir í héraðinu Latakia í norðurhluta Sýrlands. Er það skammt frá þeim stað sem rússnesk orrustuþota brotlenti á eftir að hafa verið skotin niður af tyrkneska flughernum.
Fréttaveita AFP greinir einnig frá því að orrustuþotur, að líkindum frá Rússlandi, hafi gert loftárásir á skotmörk nærri landamærum Tyrklands í norðurhluta héraðsins Aleppo. Minnst þrír eru sagðir látnir eftir árásina en hún beindist einkum að vöruflutningabílum sem gjöreyðilögðust.
AFP hefur eftir talsmanni mannréttindasamtaka á svæðinu að rússneskar orrustuþotur hafi frá því í morgun gert alls 12 loftárásir á skotmörk innan héraðsins Latakia. Ekki er vitað um mannfall.
Þá voru einnig gerðar loftárásir á þeim stað sem rússnesk herþyrla nauðlenti á eftir að hafa skaddast illa í skotárás vígamanna. Var þyrlan ein tveggja sem send var til að bjarga flugmönnunum sem skotnir voru niður í gær. Einn rússneskur hermaður, sem var um borð í þyrlunni, týndi lífi.