Bandarísk yfirvöld hafa birt myndskeið úr myndavél í mælaborði lögreglubíls sem sýnir hvítan lögreglumann skjóta svartan ungling sextán sinnum í bakið í Chicago í fyrra. Lögreglumaðurinn, Jason Van Dyke, hefur verið ákærður fyrir morð af ásettu ráði.
Laquan McDonald var sautján ára gamall þegar hann var skotinn til bana. Að sögn lögreglu neitaði McDonald að sleppa hníf sem hann hélt á. Van Dyke segir, samkvæmt lögmanni hans og félagi lögreglumanna, að hann hafi óttast um líf sitt.
Borgarstjóri Chicago, Rahm Emanuel, biðlar til borgarbúa um að halda ró sinni, samkvæmt frétt BBC en eftir að myndskeiðið var birt þá komu nokkur hundruð manns saman og tóku þátt í mótmælagöngu sem stöðvaði alla umferð. Þrátt fyrir eldfimt ástand voru mótmælin friðsamleg en göngumenn kölluðu 16 skot, aftur og aftur.
Ítrekað hefur komið til mótmæla víða um Bandaríkin þar sem ofbeldi hvítra lögreglumanna gagnvart svörtu fólki hefur verið mótmælt. Á mánudagskvöldið særðust fimm þátttakendur í slíkri göngu eftir að þrír hvítir menn hófu skothríð að göngufólki.