Tyrkneski herinn hefur birt hljóðupptöku sem fullyrt er að sé viðvörun sem send var til rússnesku herþotunnar áður en hún var skotin niður við landamæri Sýrlands.
„Breytið strax um stefnu til suðurs,“ heyrist rödd segja á ensku. Tyrkir segjast hafa reynt að bjarga flugmönnum SU-24 sprengjuvélarinnar. Annar þeirra lést þegar skotið var á hann þegar hann sveif til jarðar í fallhlíf.
Tyrknesk stjórnvöld sögðu að orrustuþota af gerðinni F-16 hefði grandað herþotunni sem hefði rofið lofthelgi Tyrklands tíu sinnum á fimm mínútum. Talsmaður Bandaríkjahers í Írak, Steve Warren ofursti, staðfesti þetta í fyrradag, sagði að Bandaríkjaher hefði fylgst með fjarskiptum tyrknesku þotunnar og flugmenn hennar hefðu tíu sinnum varað rússnesku þotuna við áður en hún var skotin niður. Rússar neituðu þessu og sögðu að þotan hefði ekki farið í tyrknesku lofthelgina. Flugmaðurinn sem bjargaðist segir að vélin hafi ekki farið inn í tyrkneska lofthelgi og engin viðvörun hafi verið gefin út.