Frakkar minnast í dag fórnarlamba hryðjuverkaárásanna sem gerðar voru í Parísarborg fyrir tveimur vikum. Alls létust 130 í árásunum og yfir 350 særðust.
Um eitt þúsund manns taka þátt í minningarstundinni í miðborg Parísar, þar á meðal forseti Frakklands, François Hollande. Nöfn þeirra sem létust verða lesin upp og þjóðin sameinast í einnar mínútu þögn.
Um samhæfðar aðgerðir vígamanna sem voru vopnaðir árásarrifflum og sjálfsvígssprengjubeltum var að ræða. Ráðist var á fólk á veitingastöðum og börum, tónleikahús og reynt að komast inn á Stade de France, þjóðarleikvang Frakka, þar sem leikur Frakka og Þjóðverja fór fram. Meðal áhorfenda voru Hollande.
Þrír árásarmannanna sprengdu sig upp fyrir utan leikvanginn, sem er í úthverfi Parísar, Saint-Denis.
Hryðjuverkin eru þau alvarlegustu í sögu Frakklands en aðeins tíu mánuðir eru frá hryðjuverkum sem beindust að ritstjórn Charlie Hebdo-skoptímaritsins í París og verslun gyðinga.
Minningarathöfnin fer fram í Invalides, þar sem herminjasafnið er og grafhýsi Napóleons. Þar mun Hollande ávarpa fjölskyldur fórnarlambanna.
Í frétt BBC kemur fram að Hollande hafi óskað eftir því að íbúar Frakklands sýni allir samstöðu með því að koma franska fánanum fyrir á heimilum sínum og hefur sala á fánanum meira en tvöfaldast undanfarna daga.
En ekki munu fjölskyldur allra þeirra sem voru drepnir í árásunum taka þátt í því. Fjölskylda eins fórnarlambsins segir í samtali við franska fjölmiðla að ekki hafi verið nóg gert til þess að verja þjóðina gegn slíkum voðaverkum eftir árásirnar í janúar.
Að minnsta kosti níu áttu beina aðild að árásunum 13. nóvember og eru þeir allir látnir fyrir utan tvo árásarmenn sem eru á flótta. Annar þeirra er Salah Abdeslam, sem hefur verið leitað víða í Frakklandi og Belgíu.