Flest fórnarlömb Ríkis íslams, al-Qaeda og annarra slíkra hryðjuverkasamtaka sem kenna sig við íslam, eru múslímar. Meðal þeirra 130 sem dóu í París voru nokkrir múslímar og nokkrir tugir í New York 2001. Fátt bendir til þess vestrænir múslímar styðji almennt hryðjuverk jihadista, fremur en annað fólk. Slíkir einstaklingar eru undantekningar. Kannanir á viðhorfum múslíma í Evrópuríkjum hafa hins vegar árum saman sýnt að skoðanir verulegs hluta (og stundum meirihluta) þeirra á ýmsum málum virðast stangast illilega á við vestræn lýðræðisgildi, mannréttindi, jafnrétti kynjanna o.fl.
Allur þorri evrópskra er löghlýðið fólk sem reynir eftir bestu getu að lifa samkvæmt geðugustu hlutum kóransins um mildi og frið. Og andúð á ofbeldi. En bent er á að útbreidd þröngsýni, fáfræði og afturhald í fátækustu gettóum múslíma séu jarðvegur fyrir blint ofstæki. Gott dæmi er Molenbeek-hverfið í Brussel, sjálfur borgarstjóri hverfisins hefur sagt að það sé „uppeldisstöð ofbeldis“, þaðan komu árásarmennirnir í París. Fátækrahverfi hafa oft einkennst af ofbeldi. En þar hafa ekki áður sprottið upp skipulagðir hópar sem hafa fyrir stefnu að fremja fjöldamorð á saklausum borgurum.
Áróðurinn, einkum á netinu, hefur heillað suma unga múslíma á Vesturlöndum. En þegar beinlínis er spurt segja langflestir að þeir hafi andstyggð á IS og öðrum jihadistum. Harðlínuklerkar eins og ímaminn í Grimshøj-moskunni í Árósum í Danmörku hafa verið annarrar skoðunar. Umskipti urðu þó nýverið þegar hann lýsti því yfir að hann styddi ekki IS, væri nú „hlutlaus“ gagnvart samtökunum. Einhverjum létti við það.
En hvernig á að mæla stuðninginn við IS? Breska dagblaðið Sun birti í vikunni forsíðufrétt með fyrirsögninni „Einn af hverjum fimm breskum múslímum hefur samúð með jihadistum“.
Sun er ekki þekkt fyrir varkárni og augljóst er að fregnin var mjög hæpin túlkun á niðurstöðum skoðanakönnunar sem blaðið hafði látið gera meðal liðlega þúsund múslíma. Þar var spurt hvort viðkomandi hefði „samúð með ungum múslímum sem yfirgefa Bretland til að berjast með vígamönnum í Sýrlandi“.
Spurningin var allt of opin, hægt að misskilja hana. Var fólkið kannski að segja að það hefði samúð með þeim sem farið hafa til að berjast með Kúrdum gegn IS? Og samúð er teygjanlegt hugtak, getur þýtt að fólkið skilji aulaháttinn í fáfróðum ungmennum, strákum og stelpum. En ekki endilega að það hafi samúð með málstað IS.
Blaðið hefur beðist afsökunar á fyrirsögninni en málið sýnir vel það einstigi sem fjölmiðlar verða að þræða. Málefni múslíma og innflytjenda eru viðkvæm, ekki síst eftir hryðjuverk síðustu vikna í álfunni. Auðvelt er að gera þau að fóðri fyrir ofstækisöfl. Til er fólk sem heimtar nú í nafni pólitískrar rétthugsunar að þagað sé um allt sem finna má að múslímum, neitar að IS tengist á nokkurn hátt íslam. Þessi krafa um þöggun er auðvitað ein gerð ofstækis. Ofsatrú sumra kristinna „tengist“ auðvitað kristni, hvort sem okkur líkar betur eða verr, rétt eins og ofsatrú íslamista „tengist“ íslam.
Það segir ekki alla söguna um hugarfar múslíma almennt þótt einhverjir þeirra segist hafa samúð með vígamönnum, segist jafnvel styðja IS. Og hvað um aðra Breta?
„Þar sem vitað er að ávallt er til verulegur minnihluti sem er sammála hvaða brjálæðislegu fullyrðingu sem sett er fram – Elvis er enn á lífi, geislasverð eru til – hvað ættum við þá að leggja mikið upp úr könnunum sem sagt er að sýni vísi að breskum jihadisma?“ spyr Isabel Hardman í grein í tímaritinu Spectator. Hún segir að sjaldan sé minnst á aðra könnun í mars sl. Þar hafi verið lögð sama spurning og notuð var í könnuninni fyrir Sun, um samúðina, fyrir aðra Breta en múslíma. Einn af hverjum sex hafi svarað játandi, svipað hlutfall og hjá múslímunm.
Í vikunni var svo sama spurning lögð fyrir fólk í könnun YouGov í Bretlandi, segir Hardman. 10% sögðust hafa umrædda samúð með þeim sem færu til Sýrlands og hlutfallið var heil 17% meðal kjósenda Frjálslyndra demókrata.
En skaut Sun langt fram hjá markinu? Í grein blaðsins er vitnað í Sadiq Khan, múslíma og borgarstjóraefni Verkamannaflokksins í London. „Eins og könnun Sun sýnir hafa flestir breskir múslímar rekist á einhvern með róttæk viðhorf – og það sama á við um mig.“