Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælum víðsvegar um Ástralíu í dag þar sem leiðtogar heimsins eru hvattir til þess að grípa til aðgerða varðandi loftslagsmál.
Um 150 þjóðarleiðtogar, þar á meðal Bandaríkjaforseti, Barack Obama, forseti Kína Xi Jinping, Narendra Modi frá Indlandi og Vladimír Pútín frá Rússlandi, hafa boðað komu sína á loftlagsráðstefnuna sem hefst í París á morgun.
Gríðarlegur viðbúnaður er í París vegna ráðstefnunnar en um 2.800 lögreglu- og hermenn standa vörð um ráðstefnuhöllina. Eins verða 6.300 til viðbótar á vakt víða um Porgina. Að sögn innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, hefur tæplega þúsund manns verið synjað um að koma til Frakklands að undanförnu vegna öryggisráðstafana í tengslum við ráðstefnuna.
Markmiðið er að takmarka hlýnun jarðar við tvær gráður á Celsíus en hlýnun jarðarinnar gæti aukið tíðni sjúkdóma, tortímt ræktarlandi og valdið fátækt hjá 100 milljónum manna til viðbótar að fimmtán árum liðnum, sé ekkert gert til að hindra framgang hennar. Þetta kemur fram í skýrslu sem Alþjóðabankinn gaf út nýverið.
Hlýnunin hefur þegar tafið fyrir vinnunni við að minnka fátækt að sögn bankans. Hinir fátækustu þjást nú þegar meira en aðrir vegna minnkandi regns og aukins veðurofsa sökum hlýnunarinnar.
Útgáfu skýrslunnar er ætlað að hringja viðvörunarbjöllum og kalla eftir skjótum og öruggum viðbrögðum á COP-21 loftslagsráðstefnunni í París.
Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að þau markmið, sem 146 þjóðir hafa sett sér um samdrátt í losun gróðurhúsaloftegunda, séu alls ekki næg til að koma í veg fyrir hættulega hlýnun jarðar.
Segja vísindamenn á þeirra vegum að hlýnun umfram tvær gráður muni hafa í för með sér hörmulegar afleiðingar, s.s. fordæmalausa þurrka, ofurfellibyli og fjöldaflutninga. Eins og sakir standa stefnir í þriggja gráðu hlýnun eða meira árið 2100.
En það eru ekki bara íbúar Ástralíu sem hafa tekið þátt í mótmælum því hið sama á við um íbúa Rio de Janeiro, New York og Mexíkóborg sem ætla að koma saman síðar í dag. Eins tóku um eitt þúsund þátt í mótmælum í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu í dag.
„Það er ekkert plan B“ er meðal þess sem ritað var á spjöld mótmælenda í Sydney en um 45 þúsund tóku þátt þar í dag.