Fólk sem þekkir byssumanninn sem skaut þrjá til bana í Colorado á föstudag lýsir honum sem skrýtnum einfara en hann hafi aldrei sýnt nein merki um ofbeldishneigð. Þetta kemur fram í bandarískum fjölmiðlum í dag.
Robert Lewis Dear, 57 ára, kom vopnaður árásarriffli á heilsugæslustöð sem samtökin Planned Parenthood reka og skaut á lögreglu og almenna borgara sem voru fyrir utan húsið.
Dear skaut þrjá til bana og særði fimm, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu í Colorado. Enn er ekki vitað hvers vegna árásin var gerð en umsátrið stóð yfir í rúmar fimm klukkustundir.
Þegar Dear var yfirheyrður eftir handtökuna á hann að hafa sagt: „Ekki fleiri líkamsparta barna.“ NBC-sjónvarpsstöðin hefur þetta eftir lögreglumönnum og er talið að hann sé að vísa til þess að boðið er upp á fóstureyðingar á heilsugæslustöðinni. Eins á hann að hafa talað um forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, en allt er á huldu hvað Obama tengdist málinu.
Lögreglan hefur veitt litlar sem engar upplýsingar um Dear en hann er í varðhaldi og kemur fyrir dómara á mánudag.
Íhaldsmaður og mjög trúaður byssueigandi sem telur að fóstureyðingar eigi ekki rétt á sér
Honum er lýst í bandarískum fjölmiðlum sem vandræðagemsa sem hefur nokkrum sinnum lent í smávægilegum skeinum við réttvísina. Árið 1997 hafði þáverandi eiginkona hans, Pamela Ross, einu sinni samband við lögreglu þar sem hún sakaði hann um heimilisofbeldi, samkvæmt frétt New York Times. Ross segir að Dear sé skapbráður en renni fljótt reiðin og biðjist afsökunar á framferði sínu.
Dear er íhaldsmaður og mjög trúaður byssueigandi sem trúir því að fóstureyðingar eigi ekki rétt á sér, að sögn Ross. Hún segir að hann hafi hins vegar ekki verið ofstækisfullur í skoðunum sínum á þessum málum. Hún segist aldrei hafa getað ímyndað sér að Dear myndi fremja fjöldamorð.
Ross og Dear skildu árið 2000 og síðan þá hefur hann búið í nokkrum hjólhýsahverfum og afskekktum kofum, yfirleitt einn með sjálfum sér.
Nágranni hans segir í viðtali við Washington Post að Dear sé sú manngerð sem þú hefur gætur á. „Hann hafi verið mjög skrýtinn. Það sér erfitt að lýsa honum en augnaráð hans hafi verið afar skrýtið.“
Dear bjó um tíma í Suður-Karólínu og þar komst hann að minnsta kosti sjö sinnum í kast við lögin vegna deilna við nágranna og ásakana um að hann væri gluggagægir.
Í fyrra flutti Dear vestur og keypti smá landskika í fjallabænum Harsel, vestur af Colorado Springs. Lögreglan hefur girt heimili hans af en þar er hvorki rennandi vatn, rafmagn né skólplögn.