Sádi-Arabar auglýsa eftir böðlum

Deera torgið í borginni Riyadh hefur oft verið vettvangur fullnustu …
Deera torgið í borginni Riyadh hefur oft verið vettvangur fullnustu dauðarefsinga, þar sem fólk er hálshöggvið fyrir allra augum. Ljósmynd/Wikipedia

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa nú auglýst laus til umsóknar átta störf böðla en aftökum hefur fjölgað mikið í landinu á árinu. Þeir sem dæmdir eru til dauða í landinu eru yfirleitt hálshöggnir.

Í frétt The Guardian kemur fram að engin sérstök skilyrði hafi verið nefnd í auglýsingunni en meginhlutverk þeirra sem verða ráðnir er að framkvæma aftökur en einnig aflimanir. 

Sádi-Arabía var í þriðja sæti á síðasta ári yfir flestar aftökur en Kína var í fyrsta sæti og Íran í öðru. Írak var í fjórða sæti en Bandaríkin í fimmta sæti.

Maður sem var hálshöggvinn í gær varð 85. maðurinn til þess að vera tekinn af lífi á árinu. 88 voru teknir af lífi allt síðasta ár og því er ljóst að töluvert fleiri verði teknir af lífi í Sádi-Arabíu á þessu ári en í fyrra.

Flestir voru teknir af lífi fyrir morð en 38 voru dæmdir fyrir glæpi tengda eiturlyfjum. Um helmingur var Sádi-Arabar en hinir voru frá Pakistan, Jemen, Sýrlandi, Jórdaníu, Indlandi, Indónesíu, Búrma, Tsjad, Erítreu, Filippseyjum og Súdan.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa ekki gefið upp mögulegar ástæður þess að  fleiri aftökur hafi verið á þessu ári en 2014. Að mati diplómata í ríkinu gæti það verið vegna þess að fleiri dómarar hafi verið ráðnir til starfa á árinu, sem varð til þess að dæmt var í fleiri málum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert