Frans páfi sagði í dag að það þyrfti að bregðast „nú eða aldrei“ við loftslagsbreytingum. Kallaði hann stöðuna eins og hún er í dag „jaðra við sjálfsvíg“.
Í dag hófst loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París. Þar koma saman fulltrúar frá 150 þjóðum næstu tólf dagana til þess að ræða samkomulag um að bregðast við loftslagsbreytingum.
Á blaðamannafundi sem haldinn var í einkaþotu páfans í dag sagði hann að lítið hefði gerst síðan Kyoto-bókunin var samþykkt árið 1997 og að á hverju ári yrði vandamálið alvarlegra.
„Ef ég á að nota sterkt orð, má segja að staðan jaðri við sjálfsvíg,“ sagði páfinn. „Næstum því allir sem taka þátt í viðræðunum í París vilja samkomulagið. Ég er viss um að þeim mun takast það,“ bætti hann við.
Páfinn er mikill áhugamaður um umhverfisvernd og hefur gagnrýnt mannkynið harkalega fyrir áhrif þess á loftslagsbreytingar. Í dag sagði páfinn að loftslagsbreytingar ýttu undir fátækt, fólksflótta, veikindi og stríð. Bætti hann við að það væri mikilvægt að hætta notkun jarðefnaeldsneytis.