Arabísk slagorð máluð á þotur

EasyJet þota í flugtaki frá Lille-Lesquin flugvellinum í Frakklandi.
EasyJet þota í flugtaki frá Lille-Lesquin flugvellinum í Frakklandi. mbl.is/afp

Hlaðmenn á flugvöllunum í París og Lyon í Frakklandi hafa gert lögreglu viðvart eftir að hafa séð slagorð á arabísku sem krotuð höfðu verið á farþegaþotur. Nokkur dæmi eru um það frá síðustu vikum.

Þegar uppgötvaðist að slagorðið Allah Akbar, Guð er mestur, hafði verið krotað á þotu frá spænska flugfélaginu Vueling  á Lyonflugvelli 19. nóvember var flugvélin rýmd og farþegarnir 157 sendir frá borði meðan öryggisleit og skoðun fór fram.

Þremur dögum seinna fundust álíka skilaboð á hlera að farangurshólfi þotu Easyjet rétt eftir lendingu hennar í Lyon frá Marrakech í Marokkó.

Þriðja atvikið var svo tilkynnt á Parísarflugvellinum Charles de Gaulle 24. nóvember og þá líka á þotu frá Easyjet sem nýkomin var frá Búdapest er krotið uppgötvaðist.

Í framhaldi af hryðjuverkunum í París 13. nóvember sl. hefur verið ákveðið að setja hvern og einn hinna 86.000 starfsmanna Charles de Gaulle flugvallarins í sérstaka skoðun og einstaklingar með óæskilegan bakgrunn síaðir úr. Byrjað verður á 5.000 öryggisvörðum og þeir yfirheyrðir út frá því sem fram kemur um þá á skrám leynilögreglu eftir að þeir voru ráðnir. Það sem af er ári hefur 57 mönnum, sem hneigst höfðu til róttækra trúarskoðana, verið bannað að vinna á öryggissvæðum flugvallarins, þar af fimm í nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert