Lögreglustjóranum í Chicago í Bandaríkjunum, Garry McCarthy, hefur verið sagt upp störfum, en borgarstjórinn segir að hann njóti ekki lengur trausts. Mikil reiði hefur ríkt á meðal borgarbúa eftir að það kom í ljós að lögreglumaður skaut þeldökkan unglingspilt til bana
Rahm Emanuel, borgarstjóri Chicago, greindi blaðamönnum frá ákvörðun sinni í dag. Greint er frá þessu á vef BBC.
Hvítur lögreglumaður, Jason Van Dyke, skaut Laquan McDonald sextán sinnum í október á síðasta ári. McDonald var 17 ára gamall. Van Dyke hefur verið ákærður fyrir manndráp.
„Þetta er ekki lokahnykkur vandamáls heldur er þetta upphafið á lausn vandamálsins,“ sagði Emanuel. Hann bætti því við að það væri nauðsynlegt að fá nýtt blóð og nýjan mann til að takast á við þær áskoranir sem menn stæðu frammi fyrir.
Emanuel hefur útnefnt John Escalante til að stýra lögreglunni þar til fundinn verður nýr eftirmaður McCarthy.
Margir, þar á meðal fulltrúar þeldökkra í borginni, höfðu kallað eftir afsögn McCarthys áður en borgarstjórinn tók ákvörðunina. Bent hefur verið á að glæpatíðni sé há í borginni og skortur sé á gagnsæi innan lögreglunnar.