Titringur vegna uppgangs öfgaflokks

Stuðningsmenn hægriöfgaflokksins Þjóðfylkingarinnar.
Stuðningsmenn hægriöfgaflokksins Þjóðfylkingarinnar. AFP

Franskir fjölmiðlar, forsætisráðherrann og samtök atvinnurekenda eru á meðal þeirra sem vara við afleiðingum þess að hægriöfgaflokkur Marine Le Pen, Þjóðfylkingin, kemst til valda í tvennum héraðskosningum sem fara fram um helgina. Það yrði í fyrsta skipti sem flokkurinn kæmist til valda í héraðsstjórn.

Útlit er fyrir að Þjóðfylkingin sem er andsnúin múslímum og innflytjendum fari með sigur af hólmi í héraðsstjórnarkosningum í Nord-Pas-de-Calais-Picardie og í Suðaustur-Frakklandi, þar á meðal frönsku Rívíerunni. Sætti flokkurinn hörðum árásum úr ýmsum áttum í dag.

Þannig kallaði Manuel Valls, forsætisráðherra, flokkinn „ógn við efnahaginn“ en Þjóðfylkingin vill meðal annars að Frakkar dragi sig út úr evrusamstarfinu.

„Ég beygi mig ekki fyrir þessum könnunum, besta leiðin til þess að sýna að þær hafa rangt fyrir sér er að virkja kjósendur,“ sagði Valls um skoðanakannanir sem sýna forskot Þjóðfylkingarinnar í héruðunum.

Forsvarsmaður samtaka atvinnurekenda sagði ennfremur að efnahagslega hættu stafaði af flokknum sem gæti knésett Frakkland. Dagblöð á Norður-Frakklandi deildu hart á flokkinn og drógu í efa getu hans til þess að stjórna. Þá hefur fjöldi listamanna og skemmtikrafta skrifað undir hvatningar til að fólk kjósi ekki flokkinn.

Marine Le Pen brást ókvæða við árásunum og sagði þær hneykslanlegar og sakaði dagblöðin La Voix du Nord og Nord Eclair um aðganga erindi Sósíalistaflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert