Sérfræðingum hefur verið falið að greina persónuna Gollri úr Hringadróttinssögu svo að tyrkneskur dómstóll geti komist að niðurstöðu um hvort dæma eigi lækni einn fyrir að líkja Recep Erdogan, forseta, við hann. Læknirinn á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi fyrir að móðga forsetann.
Bilgin Ciftci deildi myndum af Erdogan og Gollri á samfélagsmiðlum. Dómstóll sem fjallar um ákæruna á hendur honum komst ekki að niðurstöðu um hvort að raunveruleg líkindi væri á milli forsetans annars vegar og skáldsagnapersónunnar hins vegar. Því kallaði hann til hóp sérfræðinga; tvo fræðimenn, tvo sálfræðinga og kvikmyndafræðing, til að skera úr um hvort að samanburðurinn hafi verið móðgandi.
Dómarinn í málinu ákvað að fara þessa leið eftir að hann viðurkenndi að hafa ekki séð allar kvikmyndirnar sem nýsjálenski leikstjórinn Peter Jackson gerði eftir sagnabálki J.R.R. Tolkien. Meðferð málsins hefur verið frestað þar til í febrúar á meðan sérfræðingarnir ráða ráðum sínum.
These are the photos that physician Dr. Bilgin Çiftçi is being sued for sharing. Is #ISIS the ring? #Turkey pic.twitter.com/584CgUUsWh
— Gissur Simonarson CN (@GissiSim) December 2, 2015
Læknirinn var rekinn úr starfi á sjúkrahúsinu þar sem hann starfaði og var handtekinn en sleppt skömmu síðar í október fyrir myndbirtinguna.
Fjöldi blaðamanna, bloggara og almennra borgara hefur verið dreginn fyrir dómstóla fyrir að móðga Erdogan og háttsetta embættismenn. Merve Buyuksarac, fyrrverandi fegurðardrottning, kom fyrir dómara í maí fyrir að hafa móðgað forsetann. Í síðustu viku voru tveir þekktir blaðamenn handteknir, sakaðir um njósnir.