Bandarísk stjórnvöld hafna fullyrðingum Rússa um að ríkisstjórn Tyrklands hafi keypt olíu af hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Rússar segja ennfremur að olíunni hafi verið smyglað frá Sýrlandi.
Mark Toner, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, viðurkenndi aftur á móti að það sé ekki nýtt af nálinni að olía, sem sé dælt upp úr olíulindum á svæði sem sé nú undir stjórn samtakanna, væri flutt með ólögmætum hætti til Tyrklands.
Toner segir að smyglarar flytji olíuna yfir landamærin um borð í olíuflutningabílum. Þeir tengist ekki Ríki íslams með beinum hætti. Þá segir hann að Tyrkir starfi með bandalagsþjóðum sínum í NATO við að stöðva slíka iðju við landamærin.
„Við höfnum þeirri fullyrðingu að ríkisstjórn Tyrklands eigi í samstarfi við ISIS um að smygla olíu yfir landamærin,“ sagði Toner. Engar slíkar sannanir væru fyrir hendi.
Hann sagði ennfremur, að tyrknesk stjórnvöld hefðu gripið til aðgerða til að loka veikum svæðum við landamærin, þ.e. svæðum sem liggja að landi sem ISIS stjórnar í Sýrlandi og olían fer í gegnum.
Toner segir að þetta hafi verið gert í áratugi og tengist hryðjuverkasamtökunum ekki sérstaklega. Þessi starfsemi hafi verið í gangi áður en þau komu til sögunnar.