Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fordæmdi í kvöld fjöldamorðið sem var framið í borginni San Bernardino í Kaliforníu. Hann ítrekaði ákall sitt til bandaríska þingsins um að herða byssulöggjöf landsins. Hann sagði að svona fjöldamorð, sem eru framin með skotvopnum í Bandaríkjunum, eigi sér enga hliðstæðu í veröldinni.
Alls létust 14 þegar þrír vopnaðir menn gengu inn í Inland Regional Center, sem er þjónustumiðstöð fyrir fatlað fólk. og hófu þar skothríð. 14 særðust í árásinni og að sögn lögreglu náðu byssumennirnir að flýja, en talið er að þeir hafi komist undan í svörtum jeppa. Þeirra er nú ákaft leitað og er rannsókn í fullum gangi og viðbúnaður mikill.
Engin vopn hafa fundist á vettvangi.
CBS-fréttastöðin ræddi við Obama í kvöld. Hann sagði að það væri hægt að taka ákveðin skref til að draga úr því að slíkar árásir ættu sér stað með svo reglulegu millibili í Bandaríkjunum.
Hann hefur margsinni hvatt þingmenn til að samþykkja það að bakgrunnur þeirra sem hyggist festa kaup á skotvopnum verði kannaður rækilega. Hann vill ennfremur leggja bann við almennri sölu á árásarrifflum og slíkum hernaðartólum. Þingmenn repúblikana hafa hins vegar verið þessu algjörlega andsnúnir.
Obama hefur gefið í skyn að hann myndi vilja breyta lögunum með því að skrifa undir forsetatilskipun. Menn telja hins vegar að það væri erfitt að framfylgja slíkum lögum, og þá telja aðrir að Obama hafi í raun og veru ekki valdheimildir til þess.