Blóðdropinn sem fyllir mælinn?

Lögreglumenn leita að parinu sem myrti fjórtán manns í San …
Lögreglumenn leita að parinu sem myrti fjórtán manns í San Bernardino í Kaliforníu. AFP

Byssuofbeldi og eign í Bandaríkjunum er fordæmalaus á meðal þróaðra landa heims en lífi tuga þúsunda Bandaríkjamanna lýkur með byssukúlu á hverju ári. Þrátt fyrir nokkuð almennan stuðning við hertar reglur um byssueign er ólíklegt að nýleg fjöldamorð hafi verið síðasti blóðdropinn sem fyllir mælinn.

Tvær banvænar skotárásir á innan við viku, fyrst í Colorado þar sem árásarmaður skaut þrjá til bana i heilsugæslustöð Planned Parenthood og nú síðast í San Bernardino í Kaliforníu í gær þar sem par myrti fjórtán manns á jólaskemmtun bæjarstarfsmanna, hafa magnað upp umræður um byssuofbeldi og nauðsyn hertra reglna um byssueign í Bandaríkjunum.

Það er kunnuglegt mynstur því slíkar umræður blossa upp í hvert sinn sem fjöldamorð af þessu tagi eru framin og það er oft. Í umfjöllun New York Times kemur fram að fleiri en ein skotárás þar sem að minnsta kosti fjórir eru vegnir hafi verið framin í Bandaríkjunum á hverjum degi þessa árs að meðaltali. Í heildina hafa 462 látið lífið í þessum árásum og 1.314 særst. Samkvæmt vefsíðunni shootingtracker.com sem fylgist með fjöldamorðum af þessu tagi hafa 354 árásir verið gerðar í 220 borgum í 47 ríkjum landsins.

Rúm 4% jarðarbúa eiga 43% skotvopnanna

Fórnarlömb fjöldamorða eru hins vegar aðeins lítið brot af öllum þeim sem falla fyrir byssukúlum í Bandaríkjunum á ári hverju. Árið 2013 létust um 500 manns í þess lags fjöldamorðum samkvæmt víðustu skilgreiningu á hugtakinu. Í heildina létust fleiri en 11.200 manns í morðum með skotvopnum. Því til viðbótar sviptu hátt í 21.200 Bandaríkjamenn sig lífi með skotvopni.

Orsökin er meðal annars sú að vopnaeign í Bandaríkjunum er fordæmalaus á meðal þróaðra ríkja, eins og fram kemur í fréttaskýringu vefmiðilsins VOX. Árið 2007 var áætlað að tæplega 89 byssur væru í landinu á hverju hundrað íbúa. Næsthæsta hlutfallið í heiminum var í hinu stríðshrjáða Jemen þar sem það var 58 byssur á hundrað íbúa.

Þannig er fleiri en ein byssa á hvern fullorðinn Bandaríkjamann. Þó að Bandaríkjamenn séu aðeins 4,43% jarðarbúa eiga þeir 43% af öllum skotvopnum sem eru í einkaeigu í heiminum.

Byssueignin er hins vegar ekki eins almenn og þessar tölur gefa til kynna. Kannanir sem gerðar hafa verið benda til þess að byssu sé að finna á heimili 34-43% Bandaríkjamanna. Aðeins 22-29% sögðu hins vegar að skotvopnin tilheyrðu þeim persónulega.

Byssuáhugamenn skoða skotvopn á ársfundi NRA árið 2012.
Byssuáhugamenn skoða skotvopn á ársfundi NRA árið 2012. AFP

Fleiri annt um að verja réttinn til byssueignar

Rannsóknir sýna að eftir því sem byssur er fleiri því meiri séu líkurnar á dauðsföllum af völdum þeirra. Í ljósi gríðarlegs fjölda skotvopna í Bandaríkjunum þarf því engan að undra að ekkert ríki heims kemst með tærnar þar sem Bandaríkin hafa hælana í fjölda morða sem framin eru með skotvopnum.

Margir Bandaríkjamenn virðast gera sér grein fyrir þessu vandamálið en það hefur hins vegar ekki leitt til breytinga á lögum og reglum. Skoðanakannanir sýna að allt að 85% Bandaríkjamanna styðji bakgrunnskannanir á þeim sem kaupa skotvopn og meirihluti styður aðrar takmarkanir eins og að banna fólki með geðsjúkdóma að kaupa byssur, halda úti gagnagrunni um byssueign eða banna hálfsjálfvirkar byssur.

Byssueign er hins vegar gríðarlegt pólitískt hitamál í Bandaríkjunum. Í hvert skipti sem kallað er eftir hertum lögum fer öflug og vel smurð pólitísk vél þeirra sem vilja engar breytingar á byssueign af stað. Þar fara fremst í flokki landssamtök byssueigenda NRA, háværasti þrýstihópurinn í þessum efnum.

Afleiðing er sú að á allra síðustu árum er hærra hlutfalli Bandaríkjamanna annt um að verja réttinn til byssueignar en að koma böndum á hana. Orðræða samtaka eins og NRA er öll á þann veg að tilgangur hertra laga sé ekki að draga úr mannfalli heldur sé ætlun stjórnvalda að taka allar byssur af almenningi. Með þessu móti tekst þeim að trompa jafnvel vinsælustu tillögurnar um að herða reglur um byssueign.

Rannsóknir hafa sýnt að sterk tengsl eru á milli fjölda …
Rannsóknir hafa sýnt að sterk tengsl eru á milli fjölda byssna og morða með skotvopnum. BRENDAN SMIALOWSKI

Ástríðufullur og áhrifamikill minnihluti

Þó að byssueigendur séu í minnihluta í Bandaríkjunum fer mun meira fyrir honum en þeim sem vilja herða reglur um byssueign. Orsökina segir blaðamaður VOX þá að þeir séu mun ástríðufyllri fyrir málinu en þeir sem eru á öndverðum meiði.

Þeir sem vilja takmarka aðgengi að skotvopnum séu þeirrar skoðunar af almennum vilja til að fækka ofbeldisglæpum. Byssueigendur eru hins vegar meðal annars reknir áfram af ótta við að þeirra eigin byssur verði teknar af þeim. Þeir láta afstöðu stjórnmálamanna til málaflokksins hiklaust ráða atkvæði sínu, ólíkt þeim sem eru hlynntir takmörkunum á byssueign.

Þetta vita stjórnmálamennirnir á hægri væng bandarískra stjórnmála mætavel og því hefur NRA og byssueigendur almennt mikil áhrif á stefnu þeirra. Sumir ganga ótrúlega langt í að tryggja sér stuðning þessa hóps eins og meðfylgjandi myndband af Ted Cruz, frambjóðanda í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári, að steikja beikon á árásarriffli sýnir.

Á meðan þessi minnihluti hefur eins mikil ítök í stjórnmálum Bandaríkjanna og raun ber vitni er afar ólíklegt að lög um byssueign verði hert, hvað þá að byssum verði markvisst fækkað eins og til dæmis var gert í Ástralíu eftir verstu skotárás í sögu landsins árið 1996. Því virðist óumflýjanlegt að skotárásir, hvort sem það eru fjöldamorð eins og í Colorado og Kaliforníu, eða önnur morð með byssum verði áfram daglegt brauð í Bandaríkjunum.

Fréttaskýring VOX um byssueign Bandaríkjamanna

Fréttaskýring New York Times um fjöldamorð

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert