Fjárlög sem fela í sér niðurskurð, aðhaldsaðgerðir og skattahækkanir voru samþykkt með naumum meirihluta á gríska þinginu í dag.
Alls samþykktu 153 þingmenn frumvarpið en 145 höfnuðu því og munaði því einungis átta atkvæðum. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sagði á þinginu að fjárlög næsta árs hefðu verið erfitt verkefni fyrir ríkisstjórn sem leggur áherslu á samfélagslegan jöfnuð.
Í ágúst féllst gríska þingið á niðurskurð og skattahækkanir sem skilyrði fyrir 85 milljarða evra björgunarpakka alþjóðlegra lánastofnana.
Frumvarpið felur í sér niðurskurð er hljóðar upp á 5,7 milljarða evra og þar á meðal 1,8 milljarða niðurskurð í lífeyrissjóðakerfinu og 500 milljóna evra niðurskurð í varnarmálum. Þá felur það í sér tveggja milljarða evra skattahækkanir.
Þrátt fyrir þetta eykst halli ríkissjóðs milli ára.