Spænsk stjórnvöld stefna að því að banna talsetningu erlends sjónvarpsefnis og kvikmynda í von um að það leiði til bættrar enskukunnáttu landamanna.
Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að Spánverjar séu eftirbátur margra annarra Evrópuþjóða þegar kemur að enskukunnáttu. Nær allt erlent efni sem sýnt sé á spænskum sjónvarpsstöðum sé talsett af spænskum leikurum. Talsetning eigi sér langa sögu á Spáni en rætur hennar liggi á valdatíma einræðisherrans Franco. Þá hafi talsetning verið notuð af stjórnvöldum til þess að ritskoða erlent sjónvarpsefni.
Spænsk stjórnvöld vilja einnig fjölga enskukennurum á Spáni sem eiga ensku að móðurmáli. Rifjað er upp að forsætisráðherra landsins, Mariano Rajoy, hafi sjálfur vakið athygli fyrir slaka enskukunnáttu í opinberum heimsóknum til annarra ríkja.