Sakar Sádi Arabíu um að fjármagna öfga

Varakanslari og leiðtogi þýskra jafnaðarmanna, Sigmar Gabriel, gagnrýndi stjórnvöld í Sádi Arabíu harðlega í viðtali við þýska dagblaðið Bild am Sonntag í gær fyrir að fjármagna starfsemi íslamskra öfgamanna á Vesturlöndum og sagði að binda þyrfti endi á það.

Haft er eftir Gabriel á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að sádiarabísk stjórnvöld hafi fjármagnað moskur og samfélög íslamskra öfgamanna í vestrænum ríkjum sem fælu í sér ógn við almannahag. „Við verðum að gera Sádi Aröbum ljóst að sá tími að horft sé fram hjá þessu sé liðinn,“ sagði varakanslarinn ennfremur í viðtalinu. „Moskur wahabíta um allan heim eru fjármagnaðar af Sádi Arabíu. Margir íslamistar sem eru ógn við öryggi almennings hafa komið úr þessum samfélögum í Þýskalandi.“

Vísar Gabriel þar til íslamskrar bókstafstrúar sem kom fyrst fram í Sádi Arabíu á átjándu öld og sem bæði hryðjuverkasamtökin Ríki íslams og al-Kaída eiga rætur sínar í auk þess sem um er að ræða opinbera trúarsetningu í Sádi Arabíu. Fram kemur í fréttinni að það sé ekki nýtt að Sádi Arabía sé sökuð um að fjármagna moskur á Vesturlöndum sem hafi tengsl við íslamska hryðjuverkamenn. Sádiarabísk stjórnvöld hafi lengi fjármagnað byggingu moska um allan heim í þeim tilgangi að úbreiða trúarsetninguna.

Hins vegar segir í frétt Daily Telegraph að það sé mjög óvenjulegt að vestrænn forystumaður tali svo opinskátt um þennan helsta arabíska bandamann Vesturlanda. Ennfremur segir í fréttinni að Salman konungur Sádi Arabíu hafi boðist til þess að byggja 200 moskur í Þýskalandi fyrir sýrlenska flóttamenn sem komið hafa til landsins. Hefur boðið verið harðlega gagnrýnt í þýskum fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert