Hætta er á að Evrópusambandið liðist í sundur að sögn Martins Schulz, forseta Evrópuþingsins. Fyrir vikið verði stuðningsmenn sambandsins að berjast fyrir áframhaldandi tilvist þess. Þetta er haft eftir Schulz í þýska dagblaðinu Die Welt í dag.
Fréttaveitan Reuters fjallar um viðtalið og hefur eftir Schulz að ákveðin öfl reyndu að slíta Evrópusambandið í sundur. Ummælin eru í fréttinni sögð viðbrögð við nýlegum ummælum Jeans Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemburg, þess efnis að sambandið gæti heyrt sögunni til. „Enginn getur sagt með vissu að Evrópusambandið verði til eftir 10 ár. Ef við viljum það verðum við að leggja mikið á okkur í baráttunni fyrir því.“
Þingforsetinn ræddi ekki nákvæmlega hvað ógnaði tilvist Evrópusambandsins en stór hluti viðtalsins snerist um flóttamannavandann innan sambandsins. Sagði hann ekkert ríki Evrópusambandsins geta eitt og sér tekist á við innflytjendamálin. Það væri aðeins hægt í gegnum sambandið.