Meðalaldur tölvuþrjóta 17 ár

AFP

Deild innan bresku lögreglunnar, National Crime Agency, hefur sett herferð á laggirnar sem ætlað er að höfða til ungmenna og koma í veg fyrir að þau taki þátt í tölvuárásum. Ástæðan fyrir því að NCA ákvað að grípa til aðgerða nú er sú að meðalaldur tölvuhakkara fer sífellt lækkandi og er nú um sautján ár.

Herferðin #CyberChoices beinist ekki aðeins að ungmennum heldur foreldrum drengja á aldrinum 12-15 ára því yfirleitt hafa foreldrar ekki hugmynd um að börn þeirra taki þátt í slíkum afbrotum.

Í auglýsingu sem birt hefur verið á netinu og á ljósvakamiðlum sést unglingspiltur ásamt foreldum sínum sitjandi í sófanum þar sem foreldrarnir hæla gáfum sonarins og hvað hann er klár þegar kemur að upplýsingatækni. En það er ekki fyrr en hann fer að grínast með að ræna banka að foreldrarnir átta sig á því að sonur þeirra er tölvuþrjótur. Í lok auglýsingar sést þegar lögreglumenn NCA, sem er helsta löggæslustofnun Bretlands hvað viðkemur skipulagðri glæpastarfsemi, mansali og tölvuglæpum, yfirheyra fjölskylduna.

Richard Jones, yfirmaður NCA, segir að á undanförnum árum hafi stofnunin tekið eftir því að tölvuglæpamennirnir verða alltaf yngri og yngri. Í fyrra var meðalaldur þeirra 24 ár en er nú 17 ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert