Trump ógnar þjóðaröryggi

Donald Trump, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi repúblikana, ógnar þjóðaröryggi, segir fjölmiðlafulltrúi bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Peter Cook.

Demókratar, forystumenn repúblikana og keppinautar auðkýfingsins Donalds Trumps fordæmdu í gær yfirlýsingu hans um að banna þyrfti múslímum að ferðast til Bandaríkjanna til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Erlendir þjóðarleiðtogar, embættismenn Sameinuðu þjóðanna, leiðtogar bandarískra múslíma, samtök gyðinga og mannréttindahreyfingar gagnrýndu einnig yfirlýsinguna.

Trump sagði að margir múslímar legðu hatur á Bandaríkin og því þyrfti að banna múslímum að ferðast til landsins tímabundið, eða „þar til fulltrúar landsins okkar komast til botns í því hvað er að gerast“. Kosningastjóri auðkýfingsins sagði að bannið þyrfti að ná til allra múslíma, jafnt hælisleitenda sem ferðamanna.

Cook segir að með orðum sínum styrki Trump stöðu samtaka eins og Ríki íslams. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, segir að orð Trumps bæti ekki stöðuna í baráttunni við Ríki íslams en Bandaríkin hafa tekið þátt í loftárásum í Sýrlandi og Írak gegn vígasveitunum.

Trump lét þessi orð falla nokkrum dögum eftir að hjón, sem voru múslímar, skutu 14 til bana á jólaskemmtun í San Bernardino. Annað þeirra, Tashfeen Malik, á að hafa lýst yfir stuðningi við Ríki íslams sama dag og árásin var gerð.

Í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneytinu segir að ef landamærum Bandaríkjanna verði lokað fyrir múslímum þá myndi það skaða viðleitni Bandaríkjanna við að berjast gegn hugmyndafræði öfgasamtakanna. Cook segir síðan, án þess að nefna Trump á nafn, að allt sem styrkti stöðu Ríki íslams og stækkar gjána á milli Bandaríkjanna og múslímatrúar sé svo sannarlega ekki í neinu samhengi við gildi þjóðarinnar heldur er ógn við þjóðaröryggi.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert