Sendiherrar aðildarríkja Evrópusambandsins, 28 talsins, fjölluðu ekki um refsiaðgerðir gagnvar Rússum á fundi sínum í gær líkt og búist var við.
Ítölsk stjórnvöld vilja að leiðtogar ríkjanna 28 ræði refsiaðgerðirnar á fundi sínum í næstu viku. Um er að ræða refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi vegna átakanna í Úkraínu.
Fyrr á árinu ákváðu Rússar að loka á innflutning á íslenskum sjávarafurðum vegna stuðnings Íslands við refsiaðgerðir Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og fleiri vestrænna ríkja gegn Rússlandi vegna innlimunar Rússa á Krímsskaga og afskipti þeirra af átökum aðskilnaðarsinnar og úkraínska hersins í austurhluta Úkraínu.
Fastlega hafði verið gert ráð fyrir að sendiherrarnir myndu skrifa undir framlengingu á viðskiptaþvingunum til sex mánaða á fundinum í gær. En síðan kom í ljós að þær voru ekki lengur á dagskrá fundarins, samkvæmt heimildum AFP og fleiri fjölmiðla.
Heimildir AFP innan úr ESB herma að sendiherrarnir muni ekki heldur ræða viðskiptaþvinganirnar á fundi sínum síðar í dag.
Á sama tíma og vesturlönd beita Rússa viðskiptaþvingunum vegna Úkraínu eru þau að reyna að ná samkomulagi við Rússa um lausn borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi. Sömu heimildir herma að ítölsk yfirvöld vilji að málið verði rætt á leiðtogafundi í Brussel á fimmtudag og föstudag í næstu viku.
Heimildir AFP úr ítölsku stjórnsýslunni herma að þetta þýði hins vegar ekki að Ítalir vilji að refsiaðgerðum verði hætt í lok janúar þegar núgildandi samningur rennur út.
Refsiaðgerðirnar voru fyrst kynntar í júlí 2014 í kjölfar þess að rússneskir vígamenn skutu niður farþegaþotu Malaysia Airlines í austurhluta Úkraínu. En nú virðist ríkja ringlulreið um næstu skref.
Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, hefur ekki tekið ákvörðun um framhaldið en ríki eins og Pólland og Eystrasaltsríkin hafa tekið mun harðari stefnu varðandi refsiaðgerðirnar en mörg önnur aðildarríki ESB.
Líbía hefur áhrif
ANSA fréttastofan greinir frá því í gær að utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, hafi lýst því yfir í gær að rússnesk yfirvöld séu reiðubúin til þess að veita Ítalíu stuðning við að reyna að ná stöðuleika í Líbíu. Vandamál Líbíu sé gríðarlega mikilvægt fyrir Ítalíu, bæði landfræðilega og sögulega, sagði Lavrov á fundi með ítölskum fréttamönnum í gær.
Forseti Rússlands, Valdimír Pútín, hefur einnig sagt Renzi að ein helsta ástæðan fyrir þeim mikla fjölda flótta- og förufólks sem hafi lagt leið sína yfir Miðjarðarhafið yfir til Ítalíu sé stjórnmálaástandið í Líbíu þar sem tvær ríkisstjórnir eru starfandi.
Eins sé talið að vígamönnum Ríki íslams fjölgi hratt í Líbíu og jafnvel sé talið að leiðtogi Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi, sé í Líbíu. Öruggar heimildir hermi að Ríki íslams sé starfandi í borginni Sirte og að vígamenn al-Baghdadi séu í sambandi við vígamenn í Líbíu. Það sé mikilvægt fyrir al-Baghdadi að sýna fram á frekari vöxt sjálfskipaðs kalífadæmis samtakanna.
Lavrov segir samband Ítalíu og Rússlands sé mjög mikilvægt og það sé ekki bara ritað á pappír heldur nái það aftur í rætur þjóðanna.