Margsinnis vísað úr landi

Norskir lögreglumenn að störfum.
Norskir lögreglumenn að störfum. AFP

55 ára karlmaður sem situr í gæsluvarðhaldi í Noregi fyrir að hafa myrt tvö fórnarlömb með hnífi á götum Oslóar í morgun hafði verið vísað úr landi.

Lögmaður mannsins, Steinar Stenvaag, segir honum hinsvegar ekki hafa verið tilkynnt um brottvísunina samkvæmt NRK. 

Samkvæmt lögmanninum hafa yfirheyslur yfir skjólstæðingi hans farið fram nú í kvöld og verið krefjandi vegna andlegrar vanheilsu hans.

„Þetta er einstaklingur er viti sínu fjær og hefur verið það lengi. Hann er undir gríðarlegum þrýstingi. Ég vil kalla það félagslegan sálfræðiþrýsting og hann er fórnarlamb heims sem hefur hrunið fyrir honum,“ segir Stenvaag.

Hinn ákærði hefur búið í Noregi í fjölda ára og margsinnis verið vísað frá landinu, síðast í október í fyrra að sögn lögreglu. Stenvaag segir að þó maðurinn sé ekki upprunalega frá Noregi hafi hann engin tengsl við önnur lönd í dag.

„Þetta er einstaklingur sem getur ekki ákveðið neitt. Hann er í svo miklu uppnámi að hann veit næstum ekki hvar hann er í þessu umhverfi og hann man ekkert,“ segir Stenvaag.

„Þetta hefur verið mjög erfitt fyrir hann. Hann er óhamingjusöm manneskja og veit ekki hvað hann hefur gert. Þetta er svarthol fyrir hann.“

Stenvaag segir gerningsmanninn hafa þekkt eitt fórnarlambanna en hitt morðið hafi verið tilviljunarkennt.  Segir hann heilbrigðisyfirvöld hafa vitað af manninum og að hugsanlega hafi læknar átt að sjá merkin um það sem í stefndi. Kveðst hann hafa hitt skjólstæðing sinn fyrir tilviljun í gærkvöldi, þ.e. kvöldið fyrir morðin, þegar maðurinn kom til hans með pappíra.

„Ég tók eftir fjarrænu augnarráði hans og að hann væri ekki hann sjálfur og undir miklum þrýstingi. En ég hefði aldrei getað ímyndað mér að þetta myndi ganga svo langt. Það var algjörlega utan við minn skilning að þetta gæti farið svo illa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert