Það hefur oftsinnis gerst að tár hafa fallið á árlegum loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna. Í eitt skiptið rann blóð. Ráðstefnurnar eru enda líkamleg og andleg þrekraun fyrir fulltrúa þeirra 195 þjóða sem þar koma saman.
Verkefni fulltrúanna er langt í frá einfalt; að bjarga mannkyninu frá hörmulegum afleiðingum loftslagsbreytinga og á sama tíma að verja þrönga eiginhagsmuni.
„Það falla tár á mörgum þessara funda,“ segir Alden Meyer, en hann hefur þreyjað fjölda samningaviðræða sem hafa farið langt framyfir fyrirfram ákveðin tímamörk. Lengd fundanna má m.a. rekja til þess að ríkin fresta þess í lengstu lög að sýna hvaða spil þau hafa á hendi.
„Stundum er um að ræða tár frústrerasjónar og reiði, stundum gleðitár,“ sagði Meyer, sérfræðingur hjá Union of Concerned Scientists, í samtali við AFP í París.
Þar stendur yfir ein mikilvægasta loftslagsráðstefna SÞ til þessa, þar sem samningamenn munu freista þess að smíða samkomulag sem miðar að því að halda hlýnun undir 2 gráðum.
Tveir áratugir eru liðnir frá því að aðilar komu fyrst saman í Berlín árið 1995 en það gerist iðulega að fundunum, sem á að ljúka á föstudegi, sé áfram haldið fram á laugardag eða sunnudag.
Á þessum tímapunkti má sjá rauðeygða fulltrúa, áhorfendur og blaðamenn ráfa um ráðstefnuhöllina; vansvefta og sturtuþurfi, leitandi að stað til að halla sér örstutta stund.
„Svefnleysið; það fer að hafa áhrif á þig eftir tvær eða þrjár nætur. Þú gengur fyrir lofti, þú hugsar ekki heila hugsun, þú ert með höfuðverk, þú gleymir því hvaða dagur er,“ segir Meyer.
Í ár hófst ráðstefnan 30. nóvember og stendur til 11. desember. Samkvæmt áætlun.
Það er eðli ferlisins sem veldur því að mál enda í pattstöðu.
Það eru engin atkvæði greidd og ákvarðanir eru samþykktar með hamarshöggi, byggðar á „samkomulagi“; loðnu hugtaki sem hefur valdið miklum deilum, en þýðir í raun að engin ein rödd eru nógu hávær til að koma í veg fyrir samning ef hann nýtur víðtæks stuðnings.
Hinir löngu vinnudagar og stöðugur ágreiningur taka sinn toll.
Á COP13 í Balí brast þáverandi loftslagsstjóri Sameinuðu þjóðanna, Yvo de Boer, í grát fyrir fram þúsundir sendifulltrúa. Leiða þurfti Boer af sviðinu, en tilefni táraflaumsins var viðleitni Bandaríkjanna til að koma í veg fyrir samkomulag.
Tveimur árum seinna, í Kaupmannahöfn, stal samningamaður Velesúela, Claudia Salerno, sviðsljósinu þegar hún veifaði rauðleitum lófum og sagði að þróunarlöndin hefðu engin ráð önnur en að skera í hendur sínar og láta blóð renna til að fá athygli.
„Síðustu stundir COP eru helvískar,“ segir Mohamed Adow hjá Christian Aid, sem berst fyrir því að koma hagsmunum fátækari ríkja að á ráðstefnunum.
Adow hefur sótt sex loftslagsráðstefnur.
„Það er mikill tilfinningahiti í þessu af því að við erum að fást við ákvarðanir sem gætu varðað líf eða dauða fyrir milljónir manna. Þess fyrir utan þá verða samningaviðræðurnar mjög flóknar akkúrat á þessu stigi þegar fólk er orði vansvefta og maturinn er að klárast.“
Tasneem Essop hjá World Wide Fund for Nature man eftir COP í Durban árið 2011, sem fór tvær nætur fram yfir áætlun. Þegar lokafundur ráðstefnunnar fór fram á sunnudeginum, og samningamenn voru enn að deila, „þá varð ég að sofa,“ segir hún.
„Þannig að við sváfum, aftast í fundarsalnum, liggjandi á gólfinu. Og þegar maður vaknaði við lófatak athugaði maður hvort eitthvað hefði gerst, og ef ekkert hafði gerst, þá sofnaði maður aftur.“
Meyer, líkt og margir aðrir, kemur á ráðstefnuna vel undirbúinn.
„Ég hef augngrímuna alltaf með, eyrnatappa og lítinn kringlóttan kodda.“
Alsherjarsamkomulag um að forða jörðinni frá verstu afleiðingum loftslagsbreytinga með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda reynist handan seilingar í Kaupmannahöfn. Í París eru menn staðráðnir í því að endurtaka ekki sömu mistök og forsetaembættinu franska hefur fram til þessa tekist að halda áætlun í viðræðunum.
„Ég verð að segja að það er dálítið undarlegt. Það gerist aldrei,“ segir Essop.
Menn veðja nú um það hversu lengi Parísar-ráðstefnan muni standa, en einn háttsettur samningamaður segir að fyrr muni „svín fljúga“ en COP ljúka á réttum tíma. COP stendur fyrir Conference of the parties.
„Það sem er erfitt er að spá fyrir um hvenær þessu lýkur,“ segir Adow. „Að taka ákvörðun um hvort maður fer heim í rúmið eða vakir ef þessu skyldi skyndilega ljúka um miðja nótt.
Þegar hagsmunir aukast á síðustu klukkustundunum og ríkin leggja meira undir, þá geri ég ráð fyrir hinu hefðbundna drama.“