Hryðjuverkamaður í gæsluvarðhaldi í Ósló

Ubaydullah Hussain
Ubaydullah Hussain Skjáskot af YouTube

Þrítugur liðsmaður Ríkis íslams, Ubaydullah Hussain, var í héraðsdómi í Ósló í gærkvöldi úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Um lokað réttarhald var að ræða en hann er sakaður um að hafa fengið fólk til liðs við samtökin og hótað vitnum í öðru máli.

Hussain var handtekinn 8. desember en hann er sakaður um að hafa safnað nýliðum fyrir Ríki íslams í Evrópu auk fleiri brota. Norska öryggislögreglan, PST, handtók Hussain, sem er talinn einn öfgafyllsti íslamistinn í Noregi og hefur áður verið handtekinn, nú vegna gruns um að hann hafi verið að reyna að hafa áhrif á vitni í svo kölluðu Rolfsen máli, að sögn lögmanns Hussains, John Christian Elden. PST fór fram á að Hussain yrði í einangrun í tvær vikur en dómarinn hafnaði því. Elden segir að Hussain neiti ásökunum PST. Saksóknari segir að um síðustu helgi hafi í þrígang komið upp tilvik þar sem vitni töldu sér ógnað og því hafi verið ákveðið að handa hann.

Rolfsen málið snýst um kvikmyndagerðarmanninn Ulrik Imitaz Rolfsen, sem er að vinna við heimildarmynd sem fjallar um starfsemi og uppgang öfgasamtaka í Østlandet. PST handtók 8. júní 18 ára pilt sem tók þátt í gerð myndarinnar og Rolfsen sjálfan. Pilturinn var í haldi áfram en Rolfsen var gert að afhenda efni tengdu myndinni. PST segir að í myndinni sé að finna mikilvæg sönnunargögn um að Hussain hafi safnað nýliðum fyrir Ríki íslams. PST fékk hins vegar ekki aðgang að efninu þar sem það fellur undir lög um vernd heimildarmanna.

Hussain hefur einnig neitað því að PST fái aðgang að myndefninu og segir að hann sé fórnarlamb galdraofsókna lögreglunnar.

Í október úrskurðaði héraðsdómur í Ósló ákærur á hendur Hussain ólögmætar en þar var hann sakaður um að hvetja til hryðjuverka. Hussain hefur fagnað hryðjuverkaárásum á Facebook í fjögur skipti. Hann hefur meðal annars birt myndir af dæmdum hryðjuverkamönnum en hann segir tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar verndi sig.

Sakaður um að safna nýliðum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert