Verði tillögur sem Evrópusambandið hefur til skoðunar að veruleika fær sambandið eigin landamæralögreglu með vald til þess að grípa inn í telji hún að eitthvert aðildarríkja Schengen-samstarfsins sé ekki að sinna eftirliti á ytri landamærum svæðisins nægjanlega vel. Til þess mun landamæralögreglan ekki þurfa samþykki viðkomandi ríkja og ríkin munu ekki geta komið í veg fyrir það. Ísland er eitt aðildarríkja Schengen-samstarfsins en tillögurnar gera ráð fyrir að lokaorðið í þessum efnum verði hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Frá þessu var greint meðal annars í viðskiptablöðunum Financial Times og Wall Street Journal í gær. Einnig er fjallað um málið á fréttavefnum Euobserver.com í dag. Þar segir að stjórnvöld í bæði Þýskalandi og Frakklandi hafi ítrekað lagt áherslu á að tillögurnar nái fram að ganga. Ekki síst í ljósi hryðjuverkaárásanna í París, höfuðborg Frakklands, í síðasta mánuði og flóttamannavandans í Evrópu. Samtals eiga 26 ríki aðild að Schengen-samstarfinu. Þar af 22 af 28 ríkjum Evrópusambandsins (fyrir utan meðal annars Bretland og Írland) og fjögur aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA), Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein. Gert er ráð fyrir að tillögurnar nái til allra aðildarríkja samstarfsins og þar með talið EFTA-ríkjanna fjögurra.
Felur í sér verulegt framsal fullveldis
Fram kemur í fréttum blaðanna að ljóst sé að tillögurnar feli í sér verulegt framsal á fullveldi frá Schengen-ríkjunum til Evrópusambandsins. Hugsanlega það mesta innan sambandsins síðan evrunni var komið á laggirnar segir í Financial Times. Hin nýja landsmæralögregla kæmi í staðinn fyrir landamærastofnun sambandsins, Frontex. Stofnunin ræður ekki yfir eigin landamæralögreglu og hefur ekki heimild til þess að hafa bein afskipti af landamæragæslu á ytri landsmærum Schengen-svæðisins nema viðkomandi ríki óski eftir aðstoð.
Tillögurnar eru byggðar á vinnu starfshóps sem skilaði af sér fyrr á þessu ári en Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, boðaði í stefnuræðu sinni í Evrópuþinginu í september að slíkar tillögur yrðu lagðar fram fyrir áramótin. Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórnin birti tillögurnar á þriðjudaginn í næstu viku í aðdraganda leiðtogafundar sambandsins síðar í þeirri viku. Fram kemur í fréttunum að ekki sé víst að tillögurnar nái að öllu leyti fram að ganga þar sem skiptar skoðanir kunni að verða um þær.
Verði einnig komið á fót strandgæslu ESB
Tillögurnar gera ennfremur ráð fyrir að komið verði á fót strandgæslu Evrópusambandsins sem sjái um landamæragæslu á hafi. Hin fyrirhugaða nýja landamæralögregla yrði ekki háð aðildarríkjum Schengen-samstarfsins um mannskap eða búnað heldur hefði heimild til þess að ráða eigin lögreglumenn og kaupa þann búnað sem talinn væri nauðsynlegur. Þar á meðal skip og farartæki á landi. Sérstaklega er tekið fram í frétt Financial Times að tillögurnar nái einnig til þeirra Schengen-ríkja sem standi utan Evrópusambandsins.
Hugmyndin er ekki ný á nálinni en atburðir síðustu mánaða hafi aukið þrýsting á að slíkar tillögur nái fram að ganga. Þannig var lagt til í upphafi aldarinnar að eftirlit á ytri mörkum Schengen-svæðisins heyrði undir Evrópusambandið þegar samstarfið var fellt undir yfirstjórn þess. Lagaheimild fyrir slíkri landamæralögreglu er þegar fyrir hendi í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins að sögn embættismanna þess en einnig er haft eftir þeim í frétt Financial Times að um sé að ræða úrslitatilraun til þess að bjarga Schengen-samstarfinu.