Fjölmargar kristnar konur í Sýrlandi hafa tekið upp vopn í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. Ein þeirra er Babylonia sem segist í samtali við fréttaveituna AFP ekki sjá eftir að hafa yfirgefið tvö börn sín og starf sitt sem hárgreiðslukona til þess að ganga til liðs við sérstaka hersveit kristinna kvenna sem berjast gegn samtökunum.
Babylonia, sem er 36 ára og tilheyrir kristnum söfnuði í norðausturhluta Sýrlands, segist sakna barnanna sinna mikið en hún telji sig vera að gera framtíðina öruggari fyrir börnin sín með þátttöku sinni í stríðinu gegn Ríki íslams. Fleiri konur hafa tekið upp vopn gegn hryðjuverkasamtökunum en kristnar og þar á meðal kúrdískar konur.
Frétt mbl.is: Konurnar í baráttunni gegn Ríki íslams
Herdeild Babyloniu er enn sem komið er ekki stór en hún var sett á laggirnar fyrir skömmu. Fimmtíu hafa lokið þjálfun í búðum þeirra í bænum Al-Qahtaniyeh. En konurnar eru staðráðnar í að sanna sig í baráttunni gegn Ríki íslams segir í fréttinni. Eiginmaður Babyloniu hvatti hana til að taka upp vopn en hann hefur einnig barist gegn hryðjuverkasamtökunum.
Einnig er rætt við Luciu sem er 18 ára og hætti námi til þess að taka þátt í stríðinu gegn Ríki íslams. Systir hennar gerði það einnig gegn vilja móður þeirra. Ormia, sem einnig er 18 ára, segist ekki óttast Ríki íslams og sama segir Samir 24 ára. Þær hafa þegar tekið þátt í bardögum og segjast reiðubúnar til þess að vera í fremstu víglínu gegn hryðjuverkamönnunum.
Konurnar hafa barist við hlið nýstofnaðs hers sem samanstendur af kristnum mönnum, Kúrdum og aröbum og kallast Sýrlensku lýðræðissveitirnar. Herinn hefur náð verulegum árangri og frelsað fjölmörg þorp undan Ríki íslams með aðstoð lofthers Bandaríkjanna og bandamanna þeirra. Bandaríkjamenn hafa einnig sent hernum hergögn.