Yfirvöld í Búlgaríu lokuðu í dag landamærum sínum að Tyrklandi í kjölfar þess að fjórtán tollverðir voru handteknir fyrir spillingu. Þetta staðfestir saksóknarinn Sotir Tsatsarov.
„Allir tollverðirnir á morgunvaktinni sem stjórna öllum komum til Búlgaríu voru handteknir vegna rannsóknar á smyglhring,“ sagði saksóknarinn í útvarpsviðtali í dag.
Hann bað ferðamenn afsökunar vegna lokunarinnar og benti á að umferð fólks frá Búlgaríu til Tyrklands væri með eðlilegum hætti.
Landamærastöðin sem um ræðir er sú stærsta á Balkanskaga og þar fara margir um milli Evrópu og Mið-Austurlanda.
Í dag voru margra kílómetra langar raðir af bílum við stöðina.
Ekki er vitað nákvæmlega hvaða starfsemi glæpahringjanna er verið að rannsaka en útvarpsstöð í Búlgaríu heldur því fram að sígarettum hafi m.a. verið smyglað í miklum mæli til álfunnar um landamærastöðina.