Dómstóll borginni Kairouan í Túnís dæmdi í síðustu viku sex unga karlmenn í þriggja ára fangelsi hvern vegna ákæru um samkynhneigð. Dómurinn hefur verið fordæmdur af mannréttindasamtökum samkvæmt frétt AFP.
Fram kemur í fréttinni að um hámarksrefsingu hafi verið að ræða samkvæmt þarlendum lögum sem banna kynlíf á milli karlmanna. Karlmönnunum, sem eru námsmenn, var einnig bannað að koma í miðbæ borgarinnar í fimm ár eftir að fangelsivist þeirra er lokið. Mennirnir voru handteknir í nóvember og desember eftir að nágrannar þeirra tilkynntu þá til lögreglunnar. Þeir voru í kjölfarið látnir gangast undir endaþarmsskoðun samkvæmt fréttinni.
Haft er eftir lögfræðingi mannanna að dómnum hafi verið áfrýjað og málið verði væntanlega tekið fyrir aftur eftir 2-3 vikur. Einn þeirra fékk að auki sex mánuða fangelsisdóm vegna myndbanda sem fundust á tölvu hans og þóttu að mati dómsins móðgandi.
Mannréttindasamtökin Amnesty International hefur fordæmt dóminn og ennfremur sagt endaþarmsskoðun jafnast á við pyntingar þegar þær væru framkvæmdar án samþykkis þeirra sem í hlut ættu. Hafa samtökin kallað eftir því að mennirnir verði látnir lausir tafarlaust.