„Þið eruð næstir“

Obama átti fund með hernaðar- og öryggisráðgjöfum sínum í Pentagon …
Obama átti fund með hernaðar- og öryggisráðgjöfum sínum í Pentagon í dag. AFP

Barack Obama Bandaríkjaforseti hét því í dag að leiðtogar hryðjuverkasamtakanna Ríki íslam yrðu drepnir og landsvæðið sem samtökin hafa sölsað undir sig tekið aftur.

„Á sama tíma og við gerum atlögu að hjarta [samtakanna] gerum við ISIL erfiðara fyrir að dæla ógnum sínum og áróðri út til heimsins,“ sagði forsetinn m.a. eftir fund með hernaðar- og öryggisráðgjöfum sínum.

Þess ber að geta að ISIL er skammstöfun á einu af heitum samtakanna; Islamic State of Iraq and the Levant.

Obama taldi upp nöfnin á átta þekktum meðlimum Ríkis íslam sem hafa fallið í aðgerðum bandamanna og sendi leiðtogum samtakanna viðvörun: „Leiðtogar ISIL geta ekki falist og næstu skilaboð okkar til þeirra eru einföld: Þið eruð næstir.“

Forsetinn sagði að bandarískar sérsveitir væru nú í Sýrlandi og aðstoðuðu sýrlenskar sveitir við að berjast gegn Ríki íslam í Raqqa, en samtökin hafa útnefnt Raqqa „höfuðborg“ sína. Obama sagði aðgerðir nú beinst gegn innviðum tengdum olíuframleiðslu- og dreifingu.

Eitt forsetaefna repúblikana, Jeb Bush, gaf lítið fyrir yfirlýsingar forsetans um hertar aðgerðir gegn Ríki íslam og sagði að þær hefðu ekki verið neitt til að tala um fram að þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert