Öfgamaðurinn Geert Wilders er stjórnmálamaður ársins í Hollandi, samkvæmt árlegri skoðanakönnun þáttarins Een Vandaag, sem sýndur er á ríkisstöðinni Netherlands 1. Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins, hlaut 25% 37.000 atkvæða.
„Hann hefur tilfinningu fyrir þeim áhyggjum sem margir Hollendingar deila varðandi hælisleitendur,“ sagði einn þeirra sem greiddu atkvæði í könnuninni, sem hefur verið gerð frá 2004.
Wilders er eini maðurinn sem hefur unnið titilinn þrisvar sinnum.
Yfirvöld í Hollandi hafa upplýst að um miðjan nóvember hafði metfjöldi hælisumsókna borist; alls 54.000. Metið var síðast slegið árið 1994, þegar ófríðurinn á Balkanskaga stóð yfir, en þá sóttu 52.000 um hæli.
„Það er frábært að vera kjörinn stjórnmálamaður ársins af almenningi. Það er mikill heiður,“ sagði Wilders í yfirlýsingu. Hann sagði titilinn hvatningu til að vinna af auknu kappi að hagsmunum Hollands og hollensku þjóðarinnar.
Samkvæmt skoðanakönnunum myndi Frelsisflokkur Wilders, sem er mjög á móti innflytjendum, hljóta 35 þingsæti af 150 í neðri deild þingsins ef gengið yrði til kosninga í dag. Næstu kosningar verða hins vegar ekki haldnar fyrr en 2017.