Lögðu hald á „grjótkastarabrúður“

Ein af brúðunum sem tollayfirvöld lögðu hald á.
Ein af brúðunum sem tollayfirvöld lögðu hald á. AFP

Ísraelska tollgæslan hefur lagt hald á sendingu af 4.000 „grjótkastarabrúðum“. Höfuð brúðanna eru hulin svokölluðum „keffiyeh“ sem á stendur „Jerúsalem er okkar“ og „Jerúsalem, hér komum við“.

Í hægri hönd hverrar brúðu er grár klumpur sem á augljóslega að vera steinn.

Aðstoðarutanríkisráðherra Ísrael, Tzipi Hotovely, segir brúðunum ætlað að „eitra huga saklausra barna“, en hún segir um að ræða lið í fræðslu palestínskra barna um ofbeldi og hatur.

Ekki er ljóst hver ætlaður móttakandi sendingarinnar var. Samkvæmt hægrisinnaða dreifiritinu Israel Hayom fyrirskipaði Hotovely að brúðunum yrði dreift til sendinefnda Ísrael til að sýna þeim ríkjum heims sem veita fjármagni til palestínskra stjórnvalda að viðræðum milli Ísrael og Palestínu verði ekki haldið áfram fyrr en umfangsmiklar breytingar hafi verið gerðar á skólakerfi síðarnefnda.

Á síðustu misserum hafa Ísraelsmenn og Palestínumenn skipst á ásökunum þar sem báðir segja hinn hvetja til ofbeldis. Frá því um miðjan september hafa Palestínumenn myrt 21 Ísraelsmann í hnífaárásum og Ísraelsmenn drepið 117 Palestínumenn, en þar af segja ísraelsk stjórnvöld að 76 hafi verið árásarmenn.

Guardian sagði frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert