Með myndir af aftökum í símanum

AFP

Hælisleitendur sem komu til Noregs í haust voru með myndir af aftökum liðsmanna Ríkis íslams, látnum börnum og fánum hryðjuverkasamtakanna, samkvæmt upplýsingum frá norsku öryggislögreglunni, PST.

VG greinir frá því að PST hefi fengið hundruð ábendinga frá starfsmönnum Útlendingastofnunar um hælisleitendur sem grunur er um að tengist hryðjuverkasamtökum.

Erik Haugland, yfirmaður PST, segir að ábendingar komi einnig frá starfsmönnum hjá flóttamannaathvörfum og fleiri. Að sögn Haugland fjölgaði hælisumsóknum gríðarlega í haust þannig að deild lögreglunnar sem annast eftirlit með innflytjendum hafði ekki lengur nægjanlegt svigrúm til þess að rannsaka alla þá sem sóttu um hæli. Talið er að um 13 þúsund umsækjendur hafi aðeins farið í gegnum lauslegt eftirlit.

PST hefur komið upp sérstakri deild til þess að fylgja eftir einhverjum hluta af því efni sem hefur fundist í símum og spjaldtölvum hælisleitenda. Má þar nefna myndir og myndskeið af aftökum og hrottalegum pyntingum. Eins af fólki sem heldur á afhöggnum höfðum ofl. Myndir af dánum börnum og öðrum fórnarlömum stríðsglæpa. Myndir af fánum tengdum vígasamtaka eins og Ríki íslams, al-Nusra Front og fleiri slíkum samtökum.

Haugland tekur fram að mikill meirihluti þeirra sem sæki um hæli í Noregi séu alls ekki grunaðir um neitt misjafnt og það að einhver sé með slíkar myndir vistaðar á síma sína geri viðkomandi ekki endilega að hryðjuverkamanni.

Það geta ýmsar ástæður legið þar að baki, segir Haugland. Til að mynda að viðkomandi vilji ekki gleyma því sem hann upplifði eða vilji koma hörmungum þeim sem fólk upplifir á framfæri.

Frétt VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert