Sarah Palin ánægð með Trump og Cruz

Sarah Palin er ánægð með Trump og Cruz.
Sarah Palin er ánægð með Trump og Cruz. AFP

Sarah Palin, fyrrum ríkisstjóri Alaska og fyrrum varaforsetaefni Repúblikana, á sér tvo uppáhalds frambjóðendur í forvalinu fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. Það eru þeir Ted Cruz og Donald Trump.

Í viðtali við CNN sagði Palin að það myndi vera algjört lúxusvandamál ef það þyrfti að velja á milli Cruz og Trump. „Það yrði gott vandamál fyrir kjósendur, því við vitum að þeir eru báðir sterkir og ákveðnir og einhverjir sem myndu taka frumkvæði. Það er það sem við þurfum í dag og báðir þessir frambjóðendur bjóða upp á það.“

Palin sagðist þó ekki vera nálægt því að ákveða hvorn hún muni kjósa. Dóttir Palin, Willow Palin, er þó búin að ákveða að kjósa Trump.

Aðspurð út í ummæli Trump um múslíma í Bandaríkjunum sagði Palin „frjálslynda fjölmiðla“ hafa brenglað umræðuna. Það vakti mikla athygli á dögunum þegar að Trump stakk upp á því að múslimum yrði einfaldlega bannað að koma til Bandaríkjanna. Að mati Palin fékk Trump „ekki að klára“ og hún telur að hann hafi frekar verið að meina að það þyrfti að taka „hlé“ á starfsemi „eyðilags“ innflytjendakerfis.

„Ég held að Trump hafi verið að reyna að segja að það ætti að taka hlé á innflutningi fólks yfir höfuð. Ég held að hann hafi verið að meina það,“ sagði Palin.

Fjölmargir hafa gagnrýnt ummæli Trump um múslíma. Þar á meðal eru John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Dick Cheney, fyrr­ver­andi vara­for­seti Bandaríkjanna og Manu­el Valls, for­sæt­is­ráðherra Frakka. Þar að auki hafa 559 þúsund skrifað undir undirskriftalista þess efnis að það eigi að banna Trump að koma til Bretlands.

Donald Trump
Donald Trump AFP
Ted Cruz
Ted Cruz AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert