Trump sækir enn í sig veðrið

Pappamassa-skúlptúr af Donald Trump. Frambjóðandinn sækir enn í sig veðrið …
Pappamassa-skúlptúr af Donald Trump. Frambjóðandinn sækir enn í sig veðrið þrátt fyrir harða gagnrýni undanfarið. AFP

Kosningabarátta Donald Trump sýnir ekki merki þeirrar gagnrýni sem frambjóðandinn kallaði yfir sig með ummælum sínum um bann gegn múslimum en samkvæmt skoðanakönnunum hefur bilið milli hans og helsta keppinautar hans, Ted Cruz, breikkað.

Eins og sakir standa þykir líklegt að öldungadeildarþingamaðurinn Cruz verði sá andstæðinga viðskiptajöfursins sem mun velgja honum undir uggum, en nú eru aðeins sjö vikur þar til fyrstu forkosningarnar fara fram í Iowa.

Forsetaefni repúblikana munu takast á í kappræðum á CNN í nótt og gera má ráð fyrir snörpum orðaskiptum ef ummæli Trump ber á góma, þar sem gagnrýnendur hans komu bæði úr röðum pólitískra andstæðinga og samflokksmanna.

Samkvæmt skoðanakönnun Monmouth University nýtur Trump stuðnings 41% repúblikana og er um að ræða mesta fylgi sem frambjóðandinn hefur mælst með til þessa. Cruz er annar með 14% fylgi, Marco Rubio með 10% og taugaskurðlæknirinn Ben Carson með 9%.

Niðurstöður annarrar skoðanakönnunar, sem gerð var fyrir ABC News og Washington Post, benda til þess að Trump njóti stuðnings 38% repúblikana og kjósenda sem hallast að Repúblikanaflokknum. Cruz tvöfaldar fylgi sitt og stendur í 15%, en Rubio og Carson njóta báðir 12% fylgis.

Cruz er í miklu uppáhaldi hjá hinni svokölluðu Teboðs-hreyfingu og skaut Trump ref fyrir rass í þremur af fimm nýjust skoðanakönnunum sem gerðar voru í Iowa.

Mynd af Ted Cruz á auglýsingaskilti fyrir kappræður CNN í …
Mynd af Ted Cruz á auglýsingaskilti fyrir kappræður CNN í Las Vegas. Cruz kemst næst því að narta í hæla Trump. AFP

Hugmyndafræði ofar gagnsemishyggju

„Ég tel að við munum sigra í Iowa, ég tel að við munum vinna stóran sigur í New Hampshire,“ sagði Trump hróðugur á kosningafundi í Las Vegas í gærkvöldi. „Ef við vinnum í Iowa, stjórnum við leiknum.“

Klukkustundalangt ávarp frambjóðandans var nokkrum sinnum truflað af mótmælendum, en hann virtist ekki láta það á sig fá. „Ég held að yndislegheit skipti ekki máli,“ sagði hann um þarfir kjósenda. „Þeir vilja hæfni, þeir vilja gáfur, þeir vilja seiglu.“

Trump viðurkenndi að kappræðurnar í nótt yrðu engin himnavist fyrir hann, en stjórnmálaspekingar segja ólíklegt að Cruz muni nota tækifærið til að hjóla í forystusauðinn.

Stjórnsýsluprófessorinn Bruce Buchanan við University of Texas segir Cruz leitast við að höfða til þeirra repúblikana sem hafa hvorki áhyggjur af miður góðum tengslum hans við flokksforystuna né takmarkaðri reynslu hans.

Hann segir íhaldsmenn setja hugmyndafræði ofar gagnsemishyggju um þessar mundir og það sé að reynast þeim vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert