„Til að orða það kurteislega, þetta er eitt hlægilegasta og barnalegasta dæmi um blaðamennsku sem ég hef séð, jafnvel miðað við þau viðmið sem eru til staðar þegar kemur að fréttum af kóngafólki,“ skrifar Roy Greenslade, pistlahöfundur The Guardian um frétt Daily Mail af „þreytulegu“ og „hrukkóttu“ hertogaynjunni Katrínu sem birt var á forsíðu blaðsins í vikunni.
Greenslade er prófessor í fjölmiðlafræðum við City University. Hann var ritstjóri götublaðsins Daily Mirror á árunum 1990-91.
„The Daily Mail kom með fáránlegar staðhæfingar um hertogaynjuna af Cambridge byggða á nokkrum myndum af henni sem teknar voru úti á götu,“ skrifar Greenslade.
Á forsíðunni sló blaðið málinu upp, birti stóra mynd af Katrínu og fyrirsögnin var: „Finnur þú fyrir álagi jólanna, Kate?“
Á bls. 3 í blaðinu var svo áfram fjallað um málið þar sem m.a. stóð: Sumir netverjar hafa gefið í skin að Katrín, vafin inn í 325 punda jakka frás Reiss hafi litið út fyrir að vera nær fertugu en þrítugu.“
Greenslade segir að þarna beiti blaðamaðurinn gömlu verkfæri. Með því að segja að aðrir haldi hinu og þessu fram varpi hann frá sér ábyrgðinni á ummælum.
„Ég held ekkert upp á kóngafjölskylduna, ég er eftir allt saman lýðveldissinni, en ég þekki óréttlæti þegar ég sé það. Þetta var algjörlega fyrir neðan beltisstað,“ skrifar Greenslade.
Hann segir að blaðamaður Daily Mail hafi reynt að útskýra það sem sjá mátti á myndunum, t.d. með því að segja það væri nú ekki auðvelt að vera móðir og vera undir miklu vinnuálagi í þokkabót.
Greenslade segir svo mikla hræsni fólgna í því þegar blaðamaður þykist lesa hugsanir Katrínar, s.s. að hún sé helsti gagnrýnandi sjálfrar sín. Þá skrifar blaðamaðurinn einnig nokkrar ráðleggingar til hertogaynjunnar: „Þessar myndir gætu kannski sýnt henni og verið sú viðvörun sem hún þarf til að gera það sem flestir eru örugglega að grátbiðja hana um að gera: Að hægja á sér, láta af fullkomnunaráráttunni og taka sér verðskuldaða hvíld. Það eru jú jólin.“
Greenslade segir að blaðamaðurinn, Sarah Vine, ætti að skammast sín.