„Menn spila inn á óttann“

Donald Trump og Ted Cruz í kappræðunum í nótt.
Donald Trump og Ted Cruz í kappræðunum í nótt. AFP

Silja Bára Ómarsdóttir aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir að frambjóðendur repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum ali mikið á ótta í kosningabaráttu sinni. Það hafi komið berlega í ljós í kappræðum sem voru haldnar í gærkvöldi.

„Þeir leggja upp með það hvernig tryggja eigi öryggi þjóðarinnar. Í gær var öllum skólum í Los Angeles lokað vegna hryðjuverkaógnar, þannig að það er eðlilegt að menn ræði þetta í kjölfarið. Einnig vegna atburðanna í San Bernandino,“ segir Silja Bára og á við skotárásina sem þar varð gerð í byrjun desember og kostaði 14 manns lífið.

„Þessar tilllögur um að takmarka komu múslima og herða landamæraeftirlitið tengjast þessu. En auðvitað finnst manni óttinn vera áberandi og menn eru að spila inn á hann.“

Stjórnarskrárbreytingu þyrfti til

Ummæli Trump um takmörkun á komu múslima til Bandaríkjanna hafa vakið mikla athygli. „Ef hann verður forseti getur hann aldrei framkvæmt þetta nema með stjórnarskrárbreytingum og þær eru næstum því ómögulegar í Bandaríkjunum,“ segir Silja Bára. „Hann veit að hann er að spila inn á þennan ótta og veit að fólk er hrætt við hryðjuverk. En hann myndi ekki einu sinni koma þessu í gegnum þingið eins og það er núna.“

Forskot Trump mun minnka

Trump hefur verið langefstur í skoðanakönnunum yfir vinsælustu frambjóðendur repúblikana. Næstir á eftir hafa komið þeir Ted Cruz og Marco Rubio. Silja Bára telur að draga muni saman með frambjóðendunum þegar nær dregur kosningum en fyrst verður gengið að kjörborðinu  í Iowa 1. febrúar. „Það verða þrennar kappræður í janúar og febrúar og þá fara hinir að fá miklu meira pláss í fjölmiðlum.“

Silja Bára hefur mest álit á Marco Rubio af frambjóðendunum …
Silja Bára hefur mest álit á Marco Rubio af frambjóðendunum þremur sem eru líklegastir. AFP

Hefur mest álit á Rubio

Cruz mældist nýlega með meira fylgi í Iowa en Trump í þremur skoðanakönnunum en mikilvægt er byrja kosningabaráttuna með góðri kosningu þar. „Ef Trump gengur illa í Iowa taka fjölmiðlar hann af lífi,“ segir Silja Bára og bætir við að þegar og ef Trump missi fylgi verður það Cruz sem tekur mesta fylgið frá honum. „Þá er það Rubio sem þarf að keppa við Cruz. Rubio var mjög sterkur í gærkvöldi. Cruz hefur minni þekkingu á utanríkismálum á meðan Rubio er öruggari í sínum málflutningi,“ segir hún og hefur mest álit á Rubio af frambjóðendunum þremur sem eru líklegastir.

Slæmt umtal eykur vinsældir

Hún telur litlar líkur á að Trump fagni sigi í forsetakosningunum sem hefjast í nóvember á næsta ári en tekur fram að hann sé afar óvenjulegur frambjóðandi. „Það er ekki bara bakgrunnur hans og málflutningur heldur virðist hann auka vinsældir sínar eftir því hann fær verra umtal.“

Hillary Clinton, sem er langlíklegust til að ná kjöri hjá demókrötum, heldur því fram að Cruz sé líklegastur til að verða frambjóðandi repúblikana. „Hún myndi sigra hann en Rubio myndi sigra hana. Rubio spilar inn á þetta og segist vera frambjóðandi sem getur lagt Hillary. Hann nær breiðari stuðningi en aðrir frambjóðendur og er veruleikatengdari," segir Silja Bára. 

Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ.
Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ. mbl.is/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert