Kanadískur prestur hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi í Norður-Kóreu fyrir áróður og afskipti af málefnum ríkisins.
Hyeon Soo Lim, sem er fæddur í Suður-Kóreu en er prestur í Toronto í Kanada, var dæmdur fyrir hæstarétti Norður-Kóreu eftir stutt réttarhöld, samkvæmt frétt Xinhua, kínversku ríkisfréttastofunni.
Lim var fundinn sekur um að hafa tekið þátt í því með Bandaríkjunum og Suður-Kóreu að dreifa áróðri um mannréttindamál í Norður-Kóreu og að sverta ímynd landsins. Hann var einnig sakaður um að hafa fjármagnað og aðstoðað svikara sem vildu flýja frá Norður-Kóreu.
Samkvæmt upplýsingum frá dómstólnum játaði Lim alla ákæruliði og lýsti yfir mikilli iðrun fyrir brot sín. Lim var handtekinn af yfirvöldum í Norður-Kóreu í janúar eftir komuna til landsins frá Kína.
Samkvæmt upplýsingum frá kirkju hans í Toronto var Lim aðeins í mannúðarleiðangri í Norður-Kóreu og að hann hafi oft komið þangað til þess að starfa með munaðarlausum og sjúkum.