Verður „Makedónía“ ei meir?

Nikola Gruevski, forsætisráðherra Makedóníu, segist tilbúinn til að ræða nafnbreytingu.
Nikola Gruevski, forsætisráðherra Makedóníu, segist tilbúinn til að ræða nafnbreytingu. AFP

Nikola Gruevski, forsætisráðherra Makedóníu, segist opinn fyrir því að ræða hvort breyta nafni landsins til að binda enda á óvenjulegar deilur við nágrannaríkið Grikkland, þar sem margir eru reiðir vegna meints stuldar Makedóníu á nafni grísks héraðs sem liggur suður af landamærum ríkjanna tveggja. Það verði hins vegar ekki gert nema með því að leggja málið í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Gruevski sagðist viljugur til að ræða málið, að því gefnu að möguleg breyting á nafni ríkisins yrði borin undir þjóðaratkvæði. „Við erum tilbúin til að eiga viðræður, opna á samtal við þá, og finna einhverja lausn,“ sagði ráðherrann í viðtali við Guardian.

Grikkir hafa reyndar sakað nágranna sinn um að stela fleiru en nafninu; nefnilega menningararfinum. Þá ekki síst sólartákninu sem hönnun makedónska fánans sótti innblástur til og Alexander mikla, sem aðalflugvöllur Makedóníu er nefndur eftir.

Lýðveldið Makedónía varð til 1991 við aðskilnað frá Júgóslavíu en nafngiftin varð m.a. til þess að Grikkir komu í veg fyrir aðild landsins að Nato og Evrópusambandinu, og varð til þess að Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að kalla landið Fyrrverandi júgóslavneska lýðveldið Makedónía þar til deilan hefur verið leyst.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert