Foreldrar bandaríska blaðamannsins James Foley, sem var tekinn af lífi af vígamönnum Ríki íslams, eru ósáttir við myndbirtingu Marine Le Pen, formanns Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi af líki sonar þeirra.
Foley var tekinn af lífi í Sýrlandi árið 2014 en í gær birti Le Pen færslu á Twitter með mynd af hauslausu líki Foleys, samkvæmt frétt Guardian.
Le Pen birti þrjár færslur á Twitter í gær með hryllilegum myndum af fólki sem hefur verið tekið af lífi af Ríki íslams. Með þessu vildi hún svara blaðamanni sem hefur sakað flokk hennar, Front National, um að eiga margt sameiginlegt með hryðjuverkasamtökunum.
„Þetta er Daesh (Ríki íslams)!,“ skrifar Le Pen í Twitterfærslum sínum.
En færslurnar hafa vakið litla hrifningu og er hafin rannsókn á birtingu myndunum hjá embætti saksóknara í Nanterre. Foreldrar Foleys segja að þeim hafi brugðið mjög við að sjá færsluna. Í tilkynningu frá John og Diane Foley kemur fram að fjölskyldan hafi fengið upplýsingar um myndbirtingu franska stjórnmálamannsins Marine Le Pen. Um skammarlega óritskoðaða myndbirtingu af syni þeirra sé að ræða og þau séu gríðarlega ósátt við að Le Pen noti án heimildar mynd af Jim í pólitískum tilgangi. Jafnframt því að hún birti hryllilegar tvær myndir af öðrum fórnarlömbum Ríkis íslams.
Þau fóru fram á að myndin af syni þeirra yrði tekin af Twitter samstundis. Flestir fjölmiðlar sem eru vandir af virðingu sinni birtu ekki myndir af færslum Le Pen. Hún setti færslurnar á Twitter í kjölfar þess að blaðamaðurinn Jean-Jacques Bourdin, sem er þekktur fyrir hvatvísi, sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina BFM að bæði FN og Ríki íslams einblíndu á einkenni (það sem tengir fólk saman - trúarbrögð ofl) og því tilheyrðu þau sama andlega samfélagi.
Sú frétt var að berast að Le Pen hafi fjarlægt myndina af Foley af Twitter.